Nýárskveðja

Í dag, gamlársdag, er ég að undirbúa svínasteik með puru í anda mömmu minnar og ég ræði hvert smáatriði við hana í huganum því ég hef litla reynslu en hún var þekkt fyrir sína svínasteik sem var alltaf á jóladag. Ég var hikandi með negulnaglana en fann að hún vildi ekki spara þá svo ég tók mið af því. Þegar mikið stendur til hjá mér set ég upp svuntuna hennar mömmu og legg matardiskana hennar á borð. Þeim fylgir andi foreldra minna frá ótal yndislegum veislum sem margir minnast enn. Aldrei var dropi af víni á heimilinu nema ef til sherry í döðlukökunni en samt voru hlátrasköll og mikil gleði í lofti. Strax sem barn var ég sannfærð um að stórfjölskylda mín væri sú besta í öllum heiminum og enn er ég nokkuð viss um að það var ekki fjarri sanni.

Á nýársdag átti amma mín afmæli og þá myndaðist hefð fyrir veislu hjá foreldrum mínum og hélst sú venja áfram þó amma félli frá. Mamma var að undirbúa það í marga daga, ekki veitti af því það komu margir, í kringum 30-40 manns með börnum. Þetta byrjaði um miðjan dag með kaffi, smákökum, jólaköku og fleiru góðgæti og spjalli En fljótlega fóru litlu krakkarnir að iða og spyrja hvenær ætti að byrja á hneigjuleiknum. því flest þekktu leikinn frá árinu áður og hlökkuðu til. Ekki leið á löngu þar til það var látið eftir krökkunum og skemmtunin hófst fyrir alvöru með aðalgrínurunum pabba og Bjössa bróður hans fremsta í flokki. Haldið var áfram í ýmsum leikjum alveg fram að kvöldmat og allir tóku þátt, ungir og gamlir, nema í einu herberginu voru fjórir bridgespilarar og tóku það háalvarlega og svo mamma önnum kafin að undirbúa matinn sem var á borð borinn um sjöleytið. Boðið var upp á marga rétti og á eftir dessert heimatilbúið konfekt og kaffi.

Uppáhaldsleikur minn var að leika bókaheiti enda alin upp við að bækur væru aðalfjársjóður heimilisins. Hópnum var skipt í tvö lið og fór annar hópurinn í eitthvert herbergið og hinn var eftir í stofunni. Hvor hópurinn fyrir sig æfði um stund lítið leikrit um heiti bók arinnar sem þeir höfðu valið. Svo mættust hóparnir í stofunni og annar lék með miklum tilþrifum sitt heiti og hinir áttu að giska á nafn bókarinnar. Mér fannst þetta ótrúlega spennandi og skemmtilegt.

Eftir kvöldmatinn var haldið áfram með einn leik til viðbótar þar til mamma bauð upp á kvöldkaffið. Þá settust þeir sem eftir voru með kaffi eða jólaöl og fengu smákökur með. Hanna, vinkona mömmu las upp gátur og spreyttu sig allir eins og hver gat. Þannig slaknaði á öllum gestunum og fóru svo glaðir heim til sín rétt fyrir miðnætti.

Góðar minningar lifa í hjartanu alla ævi. Ég óska öllum vinum og öðrum sem lesa þetta, gæfu til að safna í sjóð hjartans minningum sem ylja. Megi árið

2015 vera ykkur ljúft og gæfuríkt. Þakka öllum fyrir þetta ár, sem er að kveðja.

Lifið heil.

RBen


Það jákvæða

Henrik Tikkanen skrifar í bók sinni um ömmur sínar tvær og í minningu minni hljómar það þannig: Önnur þeirra bjóst við hinu versta í lífinu og það gekk eftir en hin aftur á móti átti alltaf von á því besta og það gekk líka eftir. Þetta festist í minni mínu því mér fannst þetta svo athyglisvert. Einhver gæti sagt að þetta væri tilviljun en ég er sannfærð um að viðhorfið skiptir miklu máli ef ekki öllu. 

Ef ég t.d. hugsa stöðugt um vanmátt minn og hvað ég veit lítið, þá fóðra ég það og gef því meira rými í sjálfri mér. Þess vegna er betra fyrir mig að hugsa um, hvað ég get, hvað ég veit og þannig næra það. Ég hef nú ekki aldeilis sigrað þennan þátt í lífi mínu en ég ætla að hafa þetta í huga og þjálfa mig. 

Mér hefur verið sagt að allir á jörðinni hafi við eitthvað að stríða, innra með sér eða í hinu ytra og sumir eru að fást við hvorutveggja. Onassis skipaeigandi með meiru vissi ekki aura sinna tal en upplifði að geta ekki treyst því hverjir væru vinir hans svo auðurinn tryggir ekki einu sinni áhyggjulaust líf. 

Mér var það hugleikið að vita hvernig best væri að fást við það sem hrjáði mig hið innra og þá var mér sagt að ég hugsaði eins og stríðsmaður. Með því að einbeita mér að því sem þyrfti að ráðast á og hugsaði um það sem stórt vandamál þá magnaði ég það upp. Hins vegar myndi það hjálpa mér að hugsa um kærleikann í brjósti mínu og einbeita mér að því jákvæða í fari mínu og þá um leið myndi hitt dvína því það rúmaðist ekki saman. 

Á meðan ég er skrifa þessar línur finn ég hvernig vanmáttur sækir að mér stíft og ég ætla að hunsa það en verð að gefast upp. En það gefur mér vissulega tækifæri til að æfa mig færa mig yfir í jákvæða hugsun. En það er alls ekki auðvelt, mér tekst það alls ekki vel og verð að taka hlé til íhuga málið.

Jæja, þetta voru smá átök. Um stund fannst mér lífið vera leiðinlegt og óttalegt bras. En loksins tókst mér að sjá broslegu hlið málsins og um leið gat ég umvafið sjálfa mig ástúð, eins og ég væri mitt eigið barn og sagt: “Þú ert á góðri leið.” Þá var ég aftur orðin jákvæð og lífið bjart.


Lítil saga frá árinu 2008

Það helltist yfir mig þunglyndisbylgja alveg fyrirvaralaust, alveg upp úr þurru og ég skammaðist mín, fann ekki neina ástæðu fyrir henni og ekkert í lífi mínu gaf tilefni til þessara líðan. Ég hafði verið með innri gleði og vellíðan svo lengi að ég hélt að þunglyndishugsanir væru alveg afgreiddar, endanlega úr lífi mínu. En ég eirði ekki við neitt, gat ekki fest hugann við eitt né neitt nema þennan þunga nið innra með mér. Það sótti að mér kuldi, mér fannst þetta óbærileg líðan og ég hnipraði mig saman og vildi komast út úr þessu strax, já á stundinni. Þá mundi ég eftir því sem hafði stundum reynst mér vel og það var að einbeita mér að einhverju jákvæðu, leyfa engu öðru að komast að og þá gæti ég komist úr þessum álögum.

Ég byrjaði á að þakka Guði einlæglega og af öllu hjarta fyrir fallega útsýnið mitt, fallegu fjöllin hvít af snjó, fegurð himinsins og síðan fyrir hvað mér gekk vel að takast á við veturinn. Ég tókst að víkja hvergi út af vegi jákvæðninnar og hélt áfram að þakka fyrir allt það góða sem í lífi mínu var, þakkaði honum fyrir alla hæfileika sem Hann hafði gefið mér, þakkaði fyrir allar gjafir Hans sem ég var meðvituð um og líka þær sem ég hafði ekki tekið eftir. Svo dreif ég mig inn í rúm og breiddi yfir mig sængina og byrjaði að tala við Guð og svo spurði ég: “Af hverju kom þetta yfir mig núna?” Þá heyrði ég: “Til þess að gefa þér enn eitt tækifæri til að vinna þig út úr þunglyndisbylgju.” Þetta fannst mér svo skemmtilegt að ég varð á stundinni eitt sólskinsbros og skildi að þetta var þjálfun. Einnig fékk ég þann skilning að stundum kemur bylgja án nokkurrar sjáanlegrar ástæðu. Þar með var ég laus í það skiptið.


Brotið sjálfsmat kallar á endurhæfingu

Í morgun las ég frétt um endurhæfingarlífeyri og kom þar ýmislegt mér á óvart svo sem að 447 konur, 18-35 ára, væri stærsti hópurinn í þörf fyrir þessa hjálp. Konur sem að öllu jöfnu ættu að vera leggja til hliðar fyrir ellina, safna í sinn eiginn lífeyrissjóð og í raun ættu að vera við bestu heilsu, allavega líkamlega. Á sama tíma eru 161 kona á aldrinum 52-66 ára skráðar í þessa endurhæfingu sem styður þá skoðun mína að lífið verður betra og betra með aldrinum. Helstu ástæður eru stoðkerfisvandamál og þunglyndi en þó ekki í þessari röð því talsvert fleiri hætta að vinna út af þunglyndi en heldur en vanda í stoðkerfinu.

Alla mína ævi, 72 ár, hef ég aldrei fundið fyrir jafnmikilli kröfu á líkamsrækt og síðustu ár en á sama tíma fer megin orkuinntakan fyrir líkamann inn á kvöldin. Að sjálfsögðu eru undantekningar en í meginatriðum er aðalmáltíðin að kvöldi til þegar líkaminn er að fara í hvíld og meltingafærin líka. Einhverjir bæta þetta sér upp með orkudrykkjum á daginn, sem verður eins og spítt, fríska tímabundið upp. Svo er hamast á líkamanum oftast seinnipart dags og þá er gengið á forðann. Annað stórt vandamál er hlutfall kolvetnis í fæðunni sem hefur farið úr öllum böndum síðustu áratugi á kostnað próteins og fitu, sem er öllum frumum líkamans nauðsynlegt, ekki síst yfir daginn.

Þunglyndi er ekki nýtt á nálinni en neikvæð orka hér í borginni, hraðinn og stressið í þjóðfélaginu, vaxandi skuldir að fást við og dýrara að lifa hefur ekki bætt þar um. Sjálf var ég að fást við þunglyndi meira og minna í 25 ár þar til ég um fertugt ákvað að nú væri komið nóg. Mér fannst það óbærileg tilhugsun að sjá ekki til sólar í eigin huga mánuðum saman og þegar ég komst út úr því versta sem ég hafði upplifað þá tók ég ákvörðun af allri minni einlægni og djúpt innra með mér að ég væri hætt að vera þunglynd og það var ekkert ef eða hik, ég ætlaði af öllu mína viljaþreki að hætta á því augnabliki og gerði það. Mín lausn var að hlusta á sjálfa mig, finna hvað mér fannstt innst inni, gera eitthvað sem ég gæti hlakkað til og muna eftir fegurðinni.

Ég hafði aldrei leitað til læknis eða tekið lyf við þessu en á árinu sem ég tók ákvörðunina átti ég vinkonu sem var sálfræðingur og samtöl okkar bjuggu mig undir að taka skrefið. Hún gerði mig sterkari, vakti með mér að standa með sjálfri mér án þess að hún segði það beinum orðum. Það varð mér dýrmætt. 

Það fór svo að ég varð ekki aftur þunglynd en þá kynntist ég því að þunglyndishugsun leitar á við minnsta tækifæri og því þarf að vera stöðugt á verði, vísa henni á bug sem fyrst og helst strax áður en maður er dottinn ofan í holuna. Stundum daðraði ég við þunglyndið og fann að það var viss nautn að láta undan, finnast ég eiga bágt en í þessi 30 ár sem liðin eru hef ég staðist þetta nokkurn veginn.

Hjá mér var um mjög lágt sjálfsmat að ræða og ég var ósátt við líf mitt eins og það var án þess að þora að kannast við það því þá þyrfti ég að gera eitthvað í því. Ég var kjarklaus og vissi svo sem ekki alveg hvað ég vildi. Það tók mig tíma að þjálfa mig upp og á leiðinni fann ég Guð sem ég held í hendina á hvenær sem harðnar á dalnum. Enn í dag er ég að læra af lífinu og strekkja á mér, m.a. með því að skrifa.

Við alla þá sem haldnir eru þunglyndi vildi ég segja að mikilvægast er að finna sjálfsvirði sitt, tala við sjálfan sig af ástúð hjartans, aldrei rakka sig niður með huganum. Finndu hvað það er sem þrúgar þig, skoðaðu það heiðarlega. Mundu að hver einasta mannvera er dýmæt. Ég óska af öllu hjarta að þú finnir leiðina þína.

RBen. 


Átök fylgja neikvæðri orku.

Ég bý í blokk sem svipar í mannfjölda við stað eins og Grímsey. Hér eru auðvitað ekki allir sammála um hlutina frekar en í öðrum byggðarkjörnum en undanfarið hefur það samt farið svo úr böndunum að mér blöskraði og varð til þess að ég fór að velta fyrir mér stöðu himintungla, hvort það gæti gefið mér einhverja skýringu á orkunni hér í húsinu. Táknrænt mátti líkja því við eldana í Holuhrauni.

Einu sinni keypti ég Védískt stjörnukortaforrit og er með það í tölvunni minni svo  þar gat ég á einfaldan hátt skoðað stöðu pláneta eins og hún er núna ásamt því að sjá hvar nóðurnar eru staðsettar. Ég  reyndi að lesa í þetta og fletta upp í bókum hvað þessi og þessi staða gæti kallað fram. Ég er ekki svo vön að ég sæi þetta í einni hendingu en þegar ég las  um stöðuna Rahu og Merkúr saman í húsi þá gæti ákveðin orka skapast og þá vissi ég inni í mér að þarna væri skýringin komin. Rahu og Merkúr eru einmitt saman í húsi um þessar mundir, hafa verið þar saman um tíma og eiga eitthvað eftir enn.

Á öllu eru tveir pólar og eins er með þessa stöðu en það er undir hverjum og einum komið hvort tengt er við jákvæða pólinn eða þann neikvæða. Þar sem við hér í húsinu vorum að fást við neikvæða orku þá er best ég byrji á að segja hvað ég las um þá neikvæðu og þar vitna ég í bókina Viska himinsins eftir Ástu Óla. “Þessi staða gerir fólk áttavillt í öllum skilningi. Það á erfitt með að hugsa hlutina til enda, sérstaklega ef því finnst það undir pressu. Hugsunin getur farið svo úr öllu lagi að viðkomandi skilur ekki lengur hvað er rétt og hvað rangt og gæti endað í glæpum. Það er kvíðið og treystir ekki öðrum. Mikið áreiti frá Rahu getur veldið taugaáfalli eða geðröskunum.”

Það skal tekið fram að ekki var um glæpi að ræða eða geðraskanir í húsinu okkar svo ég viti en nóg var í gangi samt.     

Ef um jákvæða tengingu við orkuna hefði verið að ræða þá hefðum við getað náð fram sameiginlegri niðurstöðu á veraldlegum verkefnum okkar hér í húsinu því Merkúr stendur m.a. fyrir tali, tjáskiptum, rökfærslu, hugsun og jafnvel fyrir skopskyni en Rahu er eftir því sem ég best veit táknrænt fyrir veraldlega aflið svo sem völd, stjórnkænsku, vinsældir og margt fleira en ég nefni þetta jákvæða því það hefði orðið að gagni í viðræðum okkar á milli. Skopskynin er líka tengt Rahu svo við hefðum jafnvel getað séð þetta með húmor.

En fyrst þessi staða hafði svona áhrif á okkar litla samfélag þá má gera ráð fyrir að á landsvísu hafi ýmislegt gengið á. Spurning hvort þessi stjörnustaða hafi kallað fram erfiðari og heiftarlegri viðbrögð en ella í stjórnmálum og öðrum vettvangi um það eru kannski aðrir færari að dæma en ég.


Erfiðar minningar

Í daglegu lífi höfum við flest öll ákveðnar hömlur eða aga og segjum ekki allt sem okkur dettur í hug af því að það er ekki viðeigandi, getur sært eða við þorum ekki að tjá okkur. Það kemur einnig fyrir að við reiðumst og látum það ekki í ljós af ýmsum orsökum og möguleiki að við fyrirgefum ekki. Þegar við getum ekki lengur haldið  ákveðnum fronti eins og þegar um heilabilun er að ræða þá virðist mér smátt og smátt koma upp á yfirborðið áhyggjur, erfiðleikar og það sem hefur hvílt á einstaklingnum í gegnum lífið, jafnvel það sem var pakkað niður og löngu gleymt. 

Þó heilabilun pabba og mömmu birtist á ólíkan hátt þá kom það fram hjá þeim báðum  þegar á leið að þau upplifðu atburði og minningar úr fortíðinni sem hafði legið þungt á þeim, valdið þeim álagi, kvíða eða ótta og svo leið það hjá. Mér fannst þetta fallegt ferli þar sem allt það erfiða sem innra býr hverfur og eftir verður friðsæld. Einn atburður sat þó lengi í mömmu og ætlaði aldrei að ná að hreinsast út en þá lærði ég að lokum að það skipti miklu máli hvernig ég tæki á móti því sem var sagt og hér er dæmi um það.

Mamma hafði upplifað erfiðan atburð þegar hún var ung stúlka hér í Reykjavík. Sveitungi hennar kom til höfuðborgarinnar og bauð henni í bíó. Eftir sýninguna vill hann endilega sjá hvernig mamma býr og hún er treg en vill samt vera kurteis og hún bauð honum inn. Þar gerist hann ágengur sem endar með að hann hrindir henni í rúmið og hún upplifir að hann ætli að nauðga sér. Henni tekst samt að losna við hann með því að sparka á viðkvæman stað.

Um það bil 65 árum síðar er þessi atburður svo ofarlega í huga hennar að hún segir mér frá honum næstum á hverjum degi í lengri tíma, marga mánuði eða jafnvel ár. Mér fannst afar erfitt og leiðinlegt að hlusta á þessa sögu aftur og aftur. Oftast var ég að hugsa um eitthvað annað á meðan hún sagði mér söguna. Stundum þegar ég fann að sagan var að koma flýtti ég mér að tala um eitthvað annað en þá kom hún bara með hana svolítið seinna.

Svo er það einn daginn að ég fæ það í kollinn að næst skuli ég hlusta á söguna af athygli, sýna mömmu samúð og gera henni grein fyrir því að ég skilji að þetta hafi verið erfitt. Þetta gerði ég einlæglega og af öllu hjarta og það hafði stórkostleg áhrif, mamma minntist aldrei aftur á þennan atburð. Ég hafði tekið á móti því sem hún sagði af kærleika og skilningi og það dugði til að hún losnaði við þessa minningu.  

RBen 


Hugsað tilbaka

 Bernska mín var björt og ég hrifnæmt en feimið barn. Pabbi og mamma veittu okkur systkinunum aga en ekki eitt augnablik efaðist ég um ást þeirra.  

Ég var elst og náði að vera einkabarn í ½ klukkustund en þá skutlaðist systir mín, Elsa, í heiminn. En eitthvað hefur henni litist illa á blikuna því það þurfti að hafa mikið fyrir því að koma lífi í hana,

Við fæddumst í sumarbústað í Fífuhvammslandi og þegar kallið kom þurfti pabbi að hlaupa niður á Kópavogshæli til að hringja en við Hafnarfjaðarveg var heil hersing af breskum hermönnum á leið í suðurátt svo pabbi varð að bíða. Hinum verðandi föður fannst þetta ætlaði aldrei að taka enda svo löng var röðin en yfir götuna komst hann fyrir rest. Hann þurfti að hringja í frænda sinn sem átti heima á Laugateig, hann átti bíl og hafði tekið að sér að sækja ljósmóðurina inn í Hlíðum og keyra suður í Kópavoginn.

Á meðan pabbi fór að hringja eftir hjálpinni var 17 ára bróðir pabba hjá mömmu og var hann skelfingu lostinn ef mamma hreyfði sig og sagði við hana: “Hreyfðu þig ekki!” Mamma spurði hann þá hvort hann hefði ekki fylgst með ánum bera en hann þóttist ekkert vita og ekkert kunna. En hann slapp með skrekkinn því hún ljósa okkar komst tímanlega. Þegar barnsgrátur heyrðist kom ljósan foreldrum mínum algjörlega á óvart með því að segja að von væri á öðru, það hafði ekki hvarflað að neinum.

Þetta var í október 1942.Við fæddumst mánuði fyrir tímann, 8 merkur og settar í kassa, appelsínu kassa. Pabbi og mamma höfðu fengið bústaðinn til leigu yfir veturinn. Þar var aðeins kalt vatn og útikamar en inni var hlýtt. Næstu daga keyrði frændi minn ljósuna til okkar og skilaði henni svo aftur upp í Hlíðar. Þetta hefur nú tekið tíma sinn fyrir hann en ekki var það talið eftir.  

Næsta barn foreldra minna kom 3 árum seinna, einnig stelpa og reyndist vera okkur tvíburunum langtum fremri í myndarskap. Þegar hún var 7 ára gat hún soðið fisk og kartöflur og annað sem hún skákaði okkur í var karmellugerð. Það var auðvitað harðbannað en  hún lét það ekki aftra sér. Þegar pabbi og mamma fóru eitthvað að heiman tók hún sig til skellti því sem til þurfti í pott. Við Elsa, sem vorum að eðlisfari níðlatar og gerðum helst ekkert að gagni nema lesa bækur og fara út að leika okkur, horfðum andagtugar á og fengum náðarsamlegast að smakka herlegheitin.

 RBen

 


Einlæg bæn

Fyrir þó nokkrum árum síðan fórum við hjónin austur á land og dvöldumst í bústað í Lóninu okkur til mikils yndisauka. Suðaustur hornið finnst mér vera fallegasti hluti landsins og ég hlakkaði mikið til að horfa á fjöllin sunnan megin í Vatnajökli á leiðinni heim En morguninn sem við vorum að leggja af stað var mikill dumbungur í lofti og öll von um fjallasýn dofnaði. Er við komum að Höfn í Hornafirði var alveg ljóst að  leiðin framundan biði ekki upp á mikið útsýni. Ég varð vægast sagt döpur í bragði því þetta hafði skipt mig miklu máli. Maðurinn minn er bænheitur og hann bað Guð einlæglega að lyfta af fjöllunum fyrir uppáhaldið sitt rétt á meðan við færum fram hjá. Eiginmaðurinn er sannfærður um að Guð haldi upp á mig eins og hann sjálfur svo þannig hljómaði bænin. En viti menn þá brá svo við að hvert fjallið á fætur öðru birtist í allri sinni tign þegar við nálguðumst og er ég leit tilbaka þá sá ég að dumbungurinn lagðist yfir hægt og rólega að nýju. Þannig gekk það alveg þar til við komum að Hvolsvelli.

Ég varð klökk, auðmjúk og þakklát fyrir þessa upplifun. Þetta færði mér skilninginn og vissuna að ekkert er ómögulegt þegar einlæg bæn er lögð fram. Siðar gerði ég mér grein fyrir að það skipti líka máli að treysta og minn ástkæri hafði fullt traust á að honum yrði svarað samkvæmt vilja Guðs.

RBen.


Sköpunin

Ég er yfir mig hrifin af fjölbreytni og fegurð náttúrunnar og því eldri sem ég verð dáist ég meira og meira að líkamanum sem sköpunarverki. Hér áður fyrr var ég vanþakklát og fann að ýmsu í útliti mínu, var óánægð með mig sem byggðist mest á lélegu sjálfstrausti. Það tók mig marga áratugi að læra að meta líkama minn og vera þakklát fyrir hann.

Í líkama eru billjónir fruma og sérhver þeirra þekkir sitt ætlunar verk. Hlutverkin eru mörg en hver og ein veit hvað henni er ætlað, er það ekki stórkostlegt og það sem meira er þær geta lifað saman í friðsemd!

Já mér finnst það algjört undur því ef ég ber það saman við manninn sem veit hreint ekki alltaf hver tilgangur hans er í lífinu og er stundum jafnvel villuráfandi þá er líkaminn hreint kraftaverk.

Sem betur fer er stjórn líkamans ekki höndum mannsins sjálfs því þá væri voðinn vís, hann gæti aldrei haft yfirsýn með öllu saman. En það er samt augljóst að við höfum áhrif á starfsemina á marga vegu, meðvitað eða ómeðvitað og getum m. a. hindrað heilbrigt flæði hans, því flest þekkjum við sjúkdóma.

En það er alveg sama hve illa við förum með líkamann þá reynir hann að heila það sem miður fer og hefur svo sterkan náttúrulegan heilunarþátt eins og sjá má á hvernig sár gróa.

Frá sköpunarinnar hendi er líkaminn slík töfrasmíð að hver sá sem telur að ekkert sé til, manninum æðra, ætti að hugsa sig tvisvar um.

RBen 


Léttvægt?

Fyrir um það bil 12 árum síðan sat ég á rúmstokknum mínum að morgni dags og var hnuggin yfir ákveðnu jarðnesku óhappi sem hafði komið upp á deginum áður.  Já ég var verulega leið og fannst ég eiga bágt, ósátt við að það gerðist.

Þá var sagt við mig að handan: ”Þetta er nú léttvægt hinu megin.” Um leið lyftist af mér þunginn og ég fann líka tilfinningu um glettni. Ég var sannfærð um að þetta væri pabbi sem er mér svo oft nálægur eftir að hann fór yfir, hann hafði mikinn húmor í lífinu og það einkennir hann enn. Um leið og hann hafði sagt þetta sá ég á augabragði að auðvitað væri þetta léttvægt hinu megin og tók aftur gleði mína.

Enda leystist fljótt og vel úr þessu og hefði verið alveg komið í gleymskunnar dá ef ég hefði ekki fengið þennan gullmola með.

RBen.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband