Nýárskveðja

Í dag, gamlársdag, er ég að undirbúa svínasteik með puru í anda mömmu minnar og ég ræði hvert smáatriði við hana í huganum því ég hef litla reynslu en hún var þekkt fyrir sína svínasteik sem var alltaf á jóladag. Ég var hikandi með negulnaglana en fann að hún vildi ekki spara þá svo ég tók mið af því. Þegar mikið stendur til hjá mér set ég upp svuntuna hennar mömmu og legg matardiskana hennar á borð. Þeim fylgir andi foreldra minna frá ótal yndislegum veislum sem margir minnast enn. Aldrei var dropi af víni á heimilinu nema ef til sherry í döðlukökunni en samt voru hlátrasköll og mikil gleði í lofti. Strax sem barn var ég sannfærð um að stórfjölskylda mín væri sú besta í öllum heiminum og enn er ég nokkuð viss um að það var ekki fjarri sanni.

Á nýársdag átti amma mín afmæli og þá myndaðist hefð fyrir veislu hjá foreldrum mínum og hélst sú venja áfram þó amma félli frá. Mamma var að undirbúa það í marga daga, ekki veitti af því það komu margir, í kringum 30-40 manns með börnum. Þetta byrjaði um miðjan dag með kaffi, smákökum, jólaköku og fleiru góðgæti og spjalli En fljótlega fóru litlu krakkarnir að iða og spyrja hvenær ætti að byrja á hneigjuleiknum. því flest þekktu leikinn frá árinu áður og hlökkuðu til. Ekki leið á löngu þar til það var látið eftir krökkunum og skemmtunin hófst fyrir alvöru með aðalgrínurunum pabba og Bjössa bróður hans fremsta í flokki. Haldið var áfram í ýmsum leikjum alveg fram að kvöldmat og allir tóku þátt, ungir og gamlir, nema í einu herberginu voru fjórir bridgespilarar og tóku það háalvarlega og svo mamma önnum kafin að undirbúa matinn sem var á borð borinn um sjöleytið. Boðið var upp á marga rétti og á eftir dessert heimatilbúið konfekt og kaffi.

Uppáhaldsleikur minn var að leika bókaheiti enda alin upp við að bækur væru aðalfjársjóður heimilisins. Hópnum var skipt í tvö lið og fór annar hópurinn í eitthvert herbergið og hinn var eftir í stofunni. Hvor hópurinn fyrir sig æfði um stund lítið leikrit um heiti bók arinnar sem þeir höfðu valið. Svo mættust hóparnir í stofunni og annar lék með miklum tilþrifum sitt heiti og hinir áttu að giska á nafn bókarinnar. Mér fannst þetta ótrúlega spennandi og skemmtilegt.

Eftir kvöldmatinn var haldið áfram með einn leik til viðbótar þar til mamma bauð upp á kvöldkaffið. Þá settust þeir sem eftir voru með kaffi eða jólaöl og fengu smákökur með. Hanna, vinkona mömmu las upp gátur og spreyttu sig allir eins og hver gat. Þannig slaknaði á öllum gestunum og fóru svo glaðir heim til sín rétt fyrir miðnætti.

Góðar minningar lifa í hjartanu alla ævi. Ég óska öllum vinum og öðrum sem lesa þetta, gæfu til að safna í sjóð hjartans minningum sem ylja. Megi árið

2015 vera ykkur ljúft og gæfuríkt. Þakka öllum fyrir þetta ár, sem er að kveðja.

Lifið heil.

RBen


« Síðasta færsla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband