Það jákvæða

Henrik Tikkanen skrifar í bók sinni um ömmur sínar tvær og í minningu minni hljómar það þannig: Önnur þeirra bjóst við hinu versta í lífinu og það gekk eftir en hin aftur á móti átti alltaf von á því besta og það gekk líka eftir. Þetta festist í minni mínu því mér fannst þetta svo athyglisvert. Einhver gæti sagt að þetta væri tilviljun en ég er sannfærð um að viðhorfið skiptir miklu máli ef ekki öllu. 

Ef ég t.d. hugsa stöðugt um vanmátt minn og hvað ég veit lítið, þá fóðra ég það og gef því meira rými í sjálfri mér. Þess vegna er betra fyrir mig að hugsa um, hvað ég get, hvað ég veit og þannig næra það. Ég hef nú ekki aldeilis sigrað þennan þátt í lífi mínu en ég ætla að hafa þetta í huga og þjálfa mig. 

Mér hefur verið sagt að allir á jörðinni hafi við eitthvað að stríða, innra með sér eða í hinu ytra og sumir eru að fást við hvorutveggja. Onassis skipaeigandi með meiru vissi ekki aura sinna tal en upplifði að geta ekki treyst því hverjir væru vinir hans svo auðurinn tryggir ekki einu sinni áhyggjulaust líf. 

Mér var það hugleikið að vita hvernig best væri að fást við það sem hrjáði mig hið innra og þá var mér sagt að ég hugsaði eins og stríðsmaður. Með því að einbeita mér að því sem þyrfti að ráðast á og hugsaði um það sem stórt vandamál þá magnaði ég það upp. Hins vegar myndi það hjálpa mér að hugsa um kærleikann í brjósti mínu og einbeita mér að því jákvæða í fari mínu og þá um leið myndi hitt dvína því það rúmaðist ekki saman. 

Á meðan ég er skrifa þessar línur finn ég hvernig vanmáttur sækir að mér stíft og ég ætla að hunsa það en verð að gefast upp. En það gefur mér vissulega tækifæri til að æfa mig færa mig yfir í jákvæða hugsun. En það er alls ekki auðvelt, mér tekst það alls ekki vel og verð að taka hlé til íhuga málið.

Jæja, þetta voru smá átök. Um stund fannst mér lífið vera leiðinlegt og óttalegt bras. En loksins tókst mér að sjá broslegu hlið málsins og um leið gat ég umvafið sjálfa mig ástúð, eins og ég væri mitt eigið barn og sagt: “Þú ert á góðri leið.” Þá var ég aftur orðin jákvæð og lífið bjart.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband