Lítil saga frá árinu 2008

Það helltist yfir mig þunglyndisbylgja alveg fyrirvaralaust, alveg upp úr þurru og ég skammaðist mín, fann ekki neina ástæðu fyrir henni og ekkert í lífi mínu gaf tilefni til þessara líðan. Ég hafði verið með innri gleði og vellíðan svo lengi að ég hélt að þunglyndishugsanir væru alveg afgreiddar, endanlega úr lífi mínu. En ég eirði ekki við neitt, gat ekki fest hugann við eitt né neitt nema þennan þunga nið innra með mér. Það sótti að mér kuldi, mér fannst þetta óbærileg líðan og ég hnipraði mig saman og vildi komast út úr þessu strax, já á stundinni. Þá mundi ég eftir því sem hafði stundum reynst mér vel og það var að einbeita mér að einhverju jákvæðu, leyfa engu öðru að komast að og þá gæti ég komist úr þessum álögum.

Ég byrjaði á að þakka Guði einlæglega og af öllu hjarta fyrir fallega útsýnið mitt, fallegu fjöllin hvít af snjó, fegurð himinsins og síðan fyrir hvað mér gekk vel að takast á við veturinn. Ég tókst að víkja hvergi út af vegi jákvæðninnar og hélt áfram að þakka fyrir allt það góða sem í lífi mínu var, þakkaði honum fyrir alla hæfileika sem Hann hafði gefið mér, þakkaði fyrir allar gjafir Hans sem ég var meðvituð um og líka þær sem ég hafði ekki tekið eftir. Svo dreif ég mig inn í rúm og breiddi yfir mig sængina og byrjaði að tala við Guð og svo spurði ég: “Af hverju kom þetta yfir mig núna?” Þá heyrði ég: “Til þess að gefa þér enn eitt tækifæri til að vinna þig út úr þunglyndisbylgju.” Þetta fannst mér svo skemmtilegt að ég varð á stundinni eitt sólskinsbros og skildi að þetta var þjálfun. Einnig fékk ég þann skilning að stundum kemur bylgja án nokkurrar sjáanlegrar ástæðu. Þar með var ég laus í það skiptið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband