Brotið sjálfsmat kallar á endurhæfingu

Í morgun las ég frétt um endurhæfingarlífeyri og kom þar ýmislegt mér á óvart svo sem að 447 konur, 18-35 ára, væri stærsti hópurinn í þörf fyrir þessa hjálp. Konur sem að öllu jöfnu ættu að vera leggja til hliðar fyrir ellina, safna í sinn eiginn lífeyrissjóð og í raun ættu að vera við bestu heilsu, allavega líkamlega. Á sama tíma eru 161 kona á aldrinum 52-66 ára skráðar í þessa endurhæfingu sem styður þá skoðun mína að lífið verður betra og betra með aldrinum. Helstu ástæður eru stoðkerfisvandamál og þunglyndi en þó ekki í þessari röð því talsvert fleiri hætta að vinna út af þunglyndi en heldur en vanda í stoðkerfinu.

Alla mína ævi, 72 ár, hef ég aldrei fundið fyrir jafnmikilli kröfu á líkamsrækt og síðustu ár en á sama tíma fer megin orkuinntakan fyrir líkamann inn á kvöldin. Að sjálfsögðu eru undantekningar en í meginatriðum er aðalmáltíðin að kvöldi til þegar líkaminn er að fara í hvíld og meltingafærin líka. Einhverjir bæta þetta sér upp með orkudrykkjum á daginn, sem verður eins og spítt, fríska tímabundið upp. Svo er hamast á líkamanum oftast seinnipart dags og þá er gengið á forðann. Annað stórt vandamál er hlutfall kolvetnis í fæðunni sem hefur farið úr öllum böndum síðustu áratugi á kostnað próteins og fitu, sem er öllum frumum líkamans nauðsynlegt, ekki síst yfir daginn.

Þunglyndi er ekki nýtt á nálinni en neikvæð orka hér í borginni, hraðinn og stressið í þjóðfélaginu, vaxandi skuldir að fást við og dýrara að lifa hefur ekki bætt þar um. Sjálf var ég að fást við þunglyndi meira og minna í 25 ár þar til ég um fertugt ákvað að nú væri komið nóg. Mér fannst það óbærileg tilhugsun að sjá ekki til sólar í eigin huga mánuðum saman og þegar ég komst út úr því versta sem ég hafði upplifað þá tók ég ákvörðun af allri minni einlægni og djúpt innra með mér að ég væri hætt að vera þunglynd og það var ekkert ef eða hik, ég ætlaði af öllu mína viljaþreki að hætta á því augnabliki og gerði það. Mín lausn var að hlusta á sjálfa mig, finna hvað mér fannstt innst inni, gera eitthvað sem ég gæti hlakkað til og muna eftir fegurðinni.

Ég hafði aldrei leitað til læknis eða tekið lyf við þessu en á árinu sem ég tók ákvörðunina átti ég vinkonu sem var sálfræðingur og samtöl okkar bjuggu mig undir að taka skrefið. Hún gerði mig sterkari, vakti með mér að standa með sjálfri mér án þess að hún segði það beinum orðum. Það varð mér dýrmætt. 

Það fór svo að ég varð ekki aftur þunglynd en þá kynntist ég því að þunglyndishugsun leitar á við minnsta tækifæri og því þarf að vera stöðugt á verði, vísa henni á bug sem fyrst og helst strax áður en maður er dottinn ofan í holuna. Stundum daðraði ég við þunglyndið og fann að það var viss nautn að láta undan, finnast ég eiga bágt en í þessi 30 ár sem liðin eru hef ég staðist þetta nokkurn veginn.

Hjá mér var um mjög lágt sjálfsmat að ræða og ég var ósátt við líf mitt eins og það var án þess að þora að kannast við það því þá þyrfti ég að gera eitthvað í því. Ég var kjarklaus og vissi svo sem ekki alveg hvað ég vildi. Það tók mig tíma að þjálfa mig upp og á leiðinni fann ég Guð sem ég held í hendina á hvenær sem harðnar á dalnum. Enn í dag er ég að læra af lífinu og strekkja á mér, m.a. með því að skrifa.

Við alla þá sem haldnir eru þunglyndi vildi ég segja að mikilvægast er að finna sjálfsvirði sitt, tala við sjálfan sig af ástúð hjartans, aldrei rakka sig niður með huganum. Finndu hvað það er sem þrúgar þig, skoðaðu það heiðarlega. Mundu að hver einasta mannvera er dýmæt. Ég óska af öllu hjarta að þú finnir leiðina þína.

RBen. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband