Átök fylgja neikvæðri orku.

Ég bý í blokk sem svipar í mannfjölda við stað eins og Grímsey. Hér eru auðvitað ekki allir sammála um hlutina frekar en í öðrum byggðarkjörnum en undanfarið hefur það samt farið svo úr böndunum að mér blöskraði og varð til þess að ég fór að velta fyrir mér stöðu himintungla, hvort það gæti gefið mér einhverja skýringu á orkunni hér í húsinu. Táknrænt mátti líkja því við eldana í Holuhrauni.

Einu sinni keypti ég Védískt stjörnukortaforrit og er með það í tölvunni minni svo  þar gat ég á einfaldan hátt skoðað stöðu pláneta eins og hún er núna ásamt því að sjá hvar nóðurnar eru staðsettar. Ég  reyndi að lesa í þetta og fletta upp í bókum hvað þessi og þessi staða gæti kallað fram. Ég er ekki svo vön að ég sæi þetta í einni hendingu en þegar ég las  um stöðuna Rahu og Merkúr saman í húsi þá gæti ákveðin orka skapast og þá vissi ég inni í mér að þarna væri skýringin komin. Rahu og Merkúr eru einmitt saman í húsi um þessar mundir, hafa verið þar saman um tíma og eiga eitthvað eftir enn.

Á öllu eru tveir pólar og eins er með þessa stöðu en það er undir hverjum og einum komið hvort tengt er við jákvæða pólinn eða þann neikvæða. Þar sem við hér í húsinu vorum að fást við neikvæða orku þá er best ég byrji á að segja hvað ég las um þá neikvæðu og þar vitna ég í bókina Viska himinsins eftir Ástu Óla. “Þessi staða gerir fólk áttavillt í öllum skilningi. Það á erfitt með að hugsa hlutina til enda, sérstaklega ef því finnst það undir pressu. Hugsunin getur farið svo úr öllu lagi að viðkomandi skilur ekki lengur hvað er rétt og hvað rangt og gæti endað í glæpum. Það er kvíðið og treystir ekki öðrum. Mikið áreiti frá Rahu getur veldið taugaáfalli eða geðröskunum.”

Það skal tekið fram að ekki var um glæpi að ræða eða geðraskanir í húsinu okkar svo ég viti en nóg var í gangi samt.     

Ef um jákvæða tengingu við orkuna hefði verið að ræða þá hefðum við getað náð fram sameiginlegri niðurstöðu á veraldlegum verkefnum okkar hér í húsinu því Merkúr stendur m.a. fyrir tali, tjáskiptum, rökfærslu, hugsun og jafnvel fyrir skopskyni en Rahu er eftir því sem ég best veit táknrænt fyrir veraldlega aflið svo sem völd, stjórnkænsku, vinsældir og margt fleira en ég nefni þetta jákvæða því það hefði orðið að gagni í viðræðum okkar á milli. Skopskynin er líka tengt Rahu svo við hefðum jafnvel getað séð þetta með húmor.

En fyrst þessi staða hafði svona áhrif á okkar litla samfélag þá má gera ráð fyrir að á landsvísu hafi ýmislegt gengið á. Spurning hvort þessi stjörnustaða hafi kallað fram erfiðari og heiftarlegri viðbrögð en ella í stjórnmálum og öðrum vettvangi um það eru kannski aðrir færari að dæma en ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband