25.7.2014 | 22:05
Mitt framlag
Á yngri árum hafði ég væntingar um hvað lífið myndi gefa mér en þegar komið var fram yfir miðjan aldur snerist það yfir í hvað ég gæti gefið af mér og vilji hjá mér til að vera til gagns. Þá var ég búin að átta mig á að sælla er að gefa en þiggja. Ég hef verið að færast til allt lífið, oftast ómeðvitað og ég tek aðeins eftir þvi ef ég lít yfir farinn veg en stundum tek ég meðvitaða ákvörðun um að taka skref. Er ég hugsa tilbaka geri ég mér grein fyrir að áföllin og erfiðleikarnir þroskuðu mig mest en samt vildi ég helst vefja mína mína nánustu í bómull og svo ekkert komi fyrir þá.
Allt lífið er tækifæri til að þroskast um það sannfærðist ég þegar ég fylgdist mömmu minni á síðastu árum lífs hennar. Þrátt fyrir mikla skerðingu í heilastarfsemi þá varð hún mýkri og kærleiksríkari á þessum árum meira og meira eftir því sem á leið og ljómaði af friði. Mér finnst þetta svo heillandi og það gleður mig mjög að vita til þess að ég sé enn að læra og haldi því áfram allt til enda.
Á minni andlegu leið hef ég oft hugsað um hvernig ég gæti lagt mitt af mörkum til góðs hér á jörðu og árum saman fannst mér að það yrði að vera eitthvað sérstakt sem ég hefði ekki enn borið gæfu til að gera eða verða.
En eftir því sem árin hafa liðið í lífi mínu skil ég betur og betur að hvert og eitt okkar hefur áhrif á andrúmsloft jarðar með hugsunum sínum og hjartalagi. Það er framlag hvers og eins til tilveru okkar á jörðinni og þannig er einnig mitt hljóðláta framlag.
RBen
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Vefurinn | Facebook