Síðustu árin með pabba

Þegar ljóst var að pabbi væri kominn með heilabilun fann ég djúpt inni í mér sterka löngun til þess að leið pabba yrði sem mýkst og honum eins auðveld og mögulegt væri. Ég þráði að komið yrði fram við hann af virðingu.

Eftir að hann var kominn inn á Landakot varð ég vör við að aðstandendur fóru stundum heim með sinn ættingja og mér fannst eins og það yrði ég að gera fyrir pabba og það væri skylda mín en í raun langaði mig það ekki. Ég vildi frekar koma og slaka á með pabba þar sem hann var. En eftir að við hjónin fórum með pabba heim fyrstu jólin sem hann var inni og fundum hvað þetta var mikið basl og streð að koma honum upp og niður stigana og ekki síst hvað það óróaði pabba, gerði honum ekkert gott, þá hætti ég að hugsa í þá veru og losnaði við sektarkennd um að ég stæði mig ekki.

Eftir það hlustaði ég meira á tilfinningu mína um hvenær ég gæti verið til gleði fyrir pabba og pressaði mig ekki ef ég fann fyrir höfnun að fara. Því ef ég hvíldi mig einn daginn var ég öflugri næsta dag og tilbúin að gefa af mér. Því ákvað að gefa það sem ég gat af heilum hug og hjarta og hvíldi mig ef ég var ekki í formi.

Ég snéri oft dæminu við og hugsaði mér að ég væri sjúklingurinn og fann innra með mér að þá myndi ég ekki vilja undir neinum kringumstæðum vera heimsótt af skyldu, þvingun eða vorkunnsemi. Nei þvert á móti vildi ég færri heimsóknir og eingöngu af hjartahlýju og væntumþykju.

Oft sat ég hjá pabba án þess að tala mikið en hugsaði mér að ég umvefði hann kærleiksorku og var sannfærð um að það nærði hann á sama hátt og blóm skynja hlýjuna sem þau fá.  Ég vildi að hann finndi að hann væri elskaður og ég sagði honum í hvert sinn sem ég kom að hann væri yndislegur pabbi. 

Þegar pabbi var kominn á Hrafnistu átti hann enn erfiðara með að tjá sig þannig að ég skildi ekki allt sem hann sagði og þurfti ég að einbeita mér verulega til að heyra orð og orð en dugði þó ekki alltaf til. Augu hans ljómuðu alltaf þegar hann sá mig koma og hann var með sinn húmor, sá ýmislegt spaugilegt þarna á ganginum sem ég kom ekki auga á en ég hló bara af því að hann hló.

Það var alveg ljóst frá því að pabbi er lagður inn á Borgarspítalann 1998 að ég yrði sú sem styddi við pabba því systur mínar áttu heima annarsstaðar og mamma var ekki lengur fær um það. Mér var það bæði ljúft og skylt þó það væri stundum erfitt því ég vann fulla vinnu og leit líka til með mömmu, sem var þá líka komin með heilabilun þó á annan hátt væri.

En þegar ég hugsa tilbaka er ég afskaplega þakklát fyrir þennan tíma með pabba og vildi ekki hafa misst af þessari reynslu fyrir nokkurn mun. Einnig er ég stolt af sjálfri mér því að ég gerði þetta eins vel og mér var unnt. Aðalatriðið á þessari göngu var að mæta honum á þeim stað sem hann var staddur hverju sinni.

RBen


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband