10.7.2014 | 22:30
Mín besta hugsun
Tengdadóttir mín benti mér á fyrir stuttu að hlusta á Abraham-Hicks á youtube. Miðillinn Ester Hicks miðlar Abraham og ég undrast færni hennar og ég heillast af svörum Abrahams við alls konar spurningum frá hinum þessum út í sal. Fræðslunni fylgir mikil kærleiksorka og mér líður oft eins og ég hafi verið í hugleiðslu eftir að hafa hlustað. En það er líka hægt að finna hugleiðslur frá Abraham og auðvelt að fylgja þeim eftir.
Stundum nær eitthvað óvænt að snerta mann djúpt, kannski ein setning sögð og hún gefur nýja sýn og þannig var það einn daginn þegar ég var að hlusta. Ég man ekki nákvæmlega orðin en það hljómaði einhvern veginn svona: Að hugsa það besta sem maður getur hverju sinni og tilfinningin vísar manni veginn. Ég ljómaði eins og sól í heiði og mér fannst ég skilja þetta alveg í botn og meiningin settist að í vitund minni.
Að sjálfsögðu fékk ég tækifæri næsta dag til að sannreyna hvort þetta virkaði. Það sóttu að mér áhyggjur og eins og lögmálið segir til um aðdráttaaflið þá dró ég að mér enn meiri áhyggjur, sem eru á sveimi í andrúmsloftinu, því af þeim er nóg í landinu okkar góða. Þessu fylgdi óþægileg tilfinning og ég fann að það var ekki á mínu valdi að leysa málið en ég var eins og ormur á öngli sem vildi losna en komst hvergi.
Þá skutlaðist inn í kollinn á mér að nú væri tækifæri til að hugsa það besta sem ég gæti í þessari stöðu. Ég reyndi að hugsa kærleiksríkt en fann að áhyggjurnar sóttu aftur að um leið og ég slakaði á þeirri hugsun, þær voru enn staðar, ég hafði ekki alveg sleppt af þeim hendinni. Eftir smá umhugsun ákvað ég að biðja fyrir viðkomandi og sá fyrir mér ljós Guðs umvefja þann sem ég var að hugsa um, og náði að hvíla í að allt yrði á besta veg samkvæmt Guðsvilja. Það dugði og ég varð friðsæl, leið vel á eftir og þær áhyggjur komu ekki aftur.
Eftir þetta hef ég fylgst betur með minni innri líðan, hef skoðað tilfinningar mínar með rannsóknareðli mínu og fundið skýrt að neikvæðar hugsanir, kalla fram leiðar tilfinningar og draga mig niður en kærleiksríkar hugsanir gefa góða tilfinningu og lyfta mér upp. Þetta er kannski öllum augljóst en samt er auðvelt að gleyma sér. Það þurfti ekki að vera nema örlítill pirringur eða neikvæð hugsun og ég fann að ég varð leið innra með mér og á sjálfri mér en ég valdi oftast að gefa því ekki mikið vægi og fór meðvitað að hugsa um það sem lyfti mér í anda.
Jafnvel á meðan ég skrifa þetta reynir hugur minn að segja mér að þetta sé ekki nógu gott sem ég skrifa og hver þekkir ekki neikvæðni hugans? Mitt svar að þessu sinni var að spyrja hjartað og það sagði að ég gerði mitt besta og þá leið mér vel. Ég þrái að ná tökum á þessu strax í gær eins og mín er von og vísa en er mannleg eins aðrir, þarf að halda vöku minni og grípa mig strax glóðvolga þegar ég gleymi mér en ég er lögð af stað og það er góð tilfinning!
RBen
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 22:43 | Facebook