Að birta sitt ljós

Frá unglingsárum og nokkuð fram eftir aldri var ég þjökuð af feimni og átti erfitt með að segja mína skoðun og hélt jafnvel að ég hefði ekkert fram að færa sem skipti máli. Ég var langt frá því að birta sjálfa mig og hélt aftur af mér í tjáningu ef nokkrir voru saman komnir í hóp.

Eftir fertugt fór ég að hlusta meira á mína innri rödd, hvað mér finndist innst inni. og nokkrum árum síðar lagði ég meðvitað af stað inn á andlega leið sem hafði í för með sér að ég fór að vinna í sjálfri mér.  Mörg skref hef ég síðan tekið í áttina að vera ég sjálf  og mörg skref á ég eftir en ég er á leiðinni, er að smátt og smátt að styrkjast og þori betur að tjá mig. Mig langar að segja ykkur  frá  því sem hafði svo góð áhrif á mig og hjálpaði mér að vaxa í styrk.

Ég hafði verið hnuggin einn daginn og ákvað að hugleiða sem hjálpar mér alltaf þegar eitthvað amar að. Ég gekk eftir strönd í huganum og róaði mig með því að finna fyrir mjúkum sandinum í hverju spori. Svo settist ég niður með krosslagðar fætur og tengdi mig við Guð og nánast samstundis skynjaði ég kærleiksorkuna svo sterkt að ég klökknaði, hnipraði mig saman og hallaði mér að Guði. En þá heyrði ég: ”Vertu allt það ljós sem þú ert.” Um leið skynjaði ég að ljós mitt stækkaði og var stærra en ég hafði áður sýnt. 

Þessa setningu fæ ég oft í hugann og óðara rétti ég úr kútnum og sé þetta fyrir mér. Það er sannfæring mín að þetta hefur þau áhrif  að ég birti betur allt það ljós sem ég er.  Það væri mér sönn gleði ef einhver gæti nýtt sér þessa reynslu mína.

RBen


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband