Minning

Mamma mín bjó 3-4 ár ein eftir að pabbi var kominn inn á Hrafnistu með heilabilun. Sjálf var hún þá þegar orðin talsvert skert, sérstaklega varðandi skammtímaminnið og samtöl okkar því mikil endurtekning dag eftir dag.

Mér datt í hug að við gerðum eitthvað saman t.d. að fara á kaffihús til að hafa fjölbreyttara umræðuefni. En fljótlega varð mér ljóst að hún hafði engan áhuga á kökum og kaffihúsum og hafði kannski aldrei haft það. Þá stakk ég upp á að við færum út að borða af og til og prófuðum alltaf á nýjan stað svo við hefðum eitthvað skemmtilegt til að tala um næstu daga á eftir. Hún var alveg til í að fara út að borða því þar fannst henni hún vera að gera eitthvað fyrir mig og ekki kom til greina annað en að hún borgaði. Það gerðum við einu sinni í mánuði í lengri tíma þar til ég sá að hún hafði sáralitla lyst á matnum og þetta væri óþarfa fyrirhöfn því hún mundi ekkert daginn eftir og varð því ekki það umræðuefni sem ég lagði af stað með í upphafi.

Í síðasta skiptið sem við fórum saman var í tilefni afmælis mömmu og valdi ég Grillið á Hótel Sögu til að gera okkur verulegan dagamun. Þetta var á virkum degi og við nánast einar í salnum og þjónn stóð allan tímann nokkra metra frá okkur til að vera til taks við minnstu bendingu. Er ég skrifa þetta núna verð ég klökk yfir þessari minningu því það var svo ríkt í mömmu að gleðja mig og það var efst í hennar huga að mér þætti þetta gaman. Við drukkum sherry fyrir matinn og þó ég þyrfti að minna hana á í hvert sinn að súpa á drykknum þá var það í mínum huga til minningar um pabba sem keypti stundum sherry handa mömmu er þau fóru út. Hann smakkaði aldrei vín en hann vissi að henni þótti sherry gott á bragðið. Við fengum okkur líka dessert eftir matinn og hann var sá glæsilegasti sem ég man eftir að hafa fengið, með hárri sykurskreytingu. Þetta var dýrt kvöld sem mamma borgaði án þess að blikna og er nú yndisleg minning. Enn sé ég fyrir mér þegar  þjónninn kom og klæddi mömmu í pelsinn eins og hún væri drottning sem hún auðvitað var þetta kvöld.

RBen


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband