1.6.2014 | 16:28
Tenging mín við Guð
Það var svo margt sem breyttist hjá mér um fertugt og eitt af því sem ég upplifði, við sorg og erfiðleika á þeim tíma, var algjör vissa um Guðsvitundina. Ég fann svo sterkt að mér var hjálpað og ég væri aldrei ein í andlegum skilningi. Ekki eitt andartak hef ég efast um þann sannleik síðan þá og ég veit það í hjarta mínu, allri vitund minni og allri sálu minni að svo er.
Eitt sinn á þessum árum las ég að hver og einn gæti tengt sig persónulega við Guð en það yrði að vera sterk þrá, Guð yrði að vera viss um þú værir að meina það til að svara þér. Það þýddi ekki að rella eins krakki í dótabúð sem vildi fá þetta eða hitt, nei þú yrðir að þrá samband við Guð einlæglega af öllu hjarta.
Og ég lagði af stað, kallaði á Guð, grét af löngun og þrá, aftur og aftur, hugleiddi ég og bað. Ég hafði skilið það sem ég las þannig að Guð myndi svara mér og tók það svo bókstaflega að ég hélt að við mig yrði talað á íslensku og kannski yrði spjall okkar á milli.
Svona gekk það í nokkur ár en smátt og smátt skynjaði ég tenginguna orkulega, ég var umvafin slíkum kærleika sem ég get ekki lýst. Það tók tíma að ná þessu í hvert sinn sem ég settist í hugleiðslu en svo skildi ég að ef ég hugsaði um Guð innra með mér og allt um kring, talaði við Hann eins og Hann sæti alveg við hliðina á mér, héldi í hendina á mér en ekki eins og Hann væri langt í burtu þá náði ég tengingunni betur.
Í upphafi bjó ég mér til mynd af strönd, ég gekk hægt í sandinum, valdi mér svo stað til að sitja á og hugsaði mér um leið að Guð settist hjá mér. Á þessari strönd gekk mér svo vel að tengjast að enn í dag vel ég stundum að fara þangað þó ég geti nú orðið tengst Guði hvar sem er og þegar ég vil.
Þó skynjun mín á Guði sé orkuleg en ekki í formi kaffispjalls þá kemur fyrir að ein og ein setning komi til mín þegar það á við. Eitt sinn er ég sest í hugleiðslu og er svolitla stund að velja mér stað, máta mig í fjörunni, í brekku með blómum, við fallegt vatn og það kemur hik á mig. Þá segir Guð við mig mildilega: Segðu mér bara hvar þú vilt vera og ég fylgi þér. jafnframt kom það sterkt í vitund mína að Guð er með mér hvar sem ég er, yfirgefur mig aldrei, fylgist með mér og styður mig samkvæmt Guðs vilja þegar ég bið um það.
Svona var ég leidd áfram í leit minni að persónulegri tengingu við Guð og um leið get ég sagt að allar mannverur hér á jörðu hafa þann rétt en ég veit jafnframt að engir tveir fara sömu leið. Sjálf reyndi ég að finna mér stað í leið annarra en það var mér ekki ætlað og ég fann ekki frið fyrr en mér var það ljóst og lagði af stað mína leið. Hver og einn þarf að feta sinn eiginn veg eftir sínu innra eðli og hann einn veit það innra með sér hver sú leið er og verður leiddur áfram þegar hann leitar eftir því.
Hver einasta sál sem fæðist hér á jörðu hefur Guðsvitund innra með sér hvort sem hann fæðist hvítur, svartur, gulur eða rauður eða á hvað hann trúir eða trúir ekki. Það hefur ekkert með rúarbrögð að gera heldur er réttur hvers og eins að tengjast meðvitað Guðsvitund.
Tenging mín við Guð er mér mikilvægari en allt annað í lífinu, gefur mér ró og dýpri kærleika til alls sem er og fyrir það er ég eilíflega þakklát.
RBen.
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 19:06 | Facebook