Gamalt munstur

Þegar mamma mín var að verða 80 ára gömul rann upp fyrir mér ljós að hún væri verulega farin að láta sig með minnið og í raun varð ég alveg steinhissa að ég skyldi ekki hafa áttað mig fyrr, því þá var komin umtalsverð skerðing.  

Á þessu tímabili gerði ég mér grein fyrir að munstur mitt gagnvart mömmu var allt öðruvísi en gagnvart pabba og þannig hafði það verið frá því að ég var ung. Ég var sífellt að reyna að breyta mömmu og þá helst skoðunum hennar en ég var alltaf ljúf við pabba. Það var mér töluvert áfall að átta mig á þessu en í raun alveg nauðsynlegt fyrir mig að sjá það til þess að ég gæti lagt af stað með að breyta viðhorfum mínum og ekki seinna vænna því ég var staðráðin í að ná því áður en mamma færi yfir.

Ég skammaðist mín fyrir að hafa verið pirruð og önug við mömmu og setti mér í hvert sinn, þegar ég var að fara til hennar, að leggja mig fram um að vera þolinmóð og jákvæð. En hvað eftir annað brást mér bogalistin og ég varð ergileg, það lak úr mér orkan þegar ég varð neikvæð og ég kom stundum örþreytt heim. Svo fór ég biðja fyrir mér, bað Guð um hjálp til að vera í kærleika á þessum stundum og þá fór þetta að koma. Smátt og smátt fyrirgaf ég sjálfri mér og fór að sætta mig við mömmu mína eins og hún var hverju sinni og fór ég þá að sjá betur og betur eiginleika hennar og kosti. Þetta tók tíma en sem betur fer náði ég að sjá mömmu í réttu ljósi án gagnrýni og upplifði dásamlegar stundir með henni allt til enda.

Hún var velgefin, samviskusöm, hjálpfús og bar umhyggju fyrir þeim sem minna máttu sín, hörkudugleg, viljasterk, kjarkmikil, heiðarleg og trygg. Þrátt fyrir heilabilun og mikla skerðingu færðist mamma til á síðasta sprettinum, varð svo mild, blíð, friðsæl og kærleiksrík að unun var að.

RBen

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband