22.5.2014 | 20:54
Að eldast
Ég las í morgun um könnun sem ég ákvað strax að taka þátt í og ein af fyrstu spurningunum hljóðar svo: Hvað er gott og hvað er slæmt við að eldast? Fyrsta hugsunin sem kom í hugann var að ef ég á annað borð vildi lifa væri gott að eldast.
Þegar ég var yngri hafði ég alls ekki alltaf lífslöngun, þjáðist af óöryggi, vanmetakennd, feimni og oft og tíðum af þunglyndi og lífsleiða. Mér fannst lífið byrja að lyftast eftir fertugt og hver áratugur eftir það verða betri og betri. Ég er enn sama sinnis nú næstum 72ja ára og gæti ekki hugsað mér að vera deginum yngri, ekki klukkustund yngri en ég er því það sem ég hef fengið með aldrinum er svo dýrmætt. Ég hef öðlast sjálfstraust, lífsreynslu, meiri skilning og samúð með öðrum, sé mig oftar með húmor og tek ekki lífið eins háalvarlega og áður. Ég er kærleiksríkari og þakklátari fyrir lífið, uppnumin yfir náttúrunni og fegurð sköpunarinnar og skynja sterkt kærleika Guðs umvefja mig og veit að Hann umvefur hvern og einn og allt sem er.
En ég eins og allir aðrir sveiflast, stundum með neikvæðan og ofvirkan huga, get orðið leið, pirruð, þung á brún, misupplögð og haft áhyggjur. Ég er svo sannarlega mannleg. Munurinn á mér núna og þegar ég var yngri er að nú get ég gert grín að því og veit að ekkert kemur til mín sem mér er ekki ætlað, ég er hér til að þroskast og það þarf stundum að strekkja á mér til að færa mig til.
Það sem gerir gæfumuninn er að nú á ég auðvelt með að fara inn á við í kyrrð og tengja mig við kærleika og ljós Guðs, þá færist ég til og sé lífið aftur í fegurra ljósi.
Á árunum 40-50 hefst dásamlegt tímabil í lífshlaupinu, tækifæri til aukins og dýpri þroska þar sem tengingin við sálina opnast og er oft kallað viskualdurinn og ég bæti því gjarnan við að lífið eftir fertugt séu demantsárin í lífinu og þar sem við eins og demantarnir höfum möguleika á að slípast og skína skært.
Mér hefur dottið það í hug að barnabörn sem koma oft inn í líf okkar á þessum aldri séu liður í að opna hjörtu okkar, gera okkur mjúk og blíð
En er eitthvað slæmt við að eldast? Ekki mikið, en ég get alveg játað það að ég legg mig fram um að leyna gráum hárum einfaldlega af því að mér finnst brúna hárið vera hluti af sjálfsmynd minni. Þá eru það hrukkurnar, ég fylgist grannt með þeim en með árunum hef ég fundið fyrir vaxandi ástúð gagnvart þeim og strýk mér hlýlega um vangann og segi gjarnan: Elskan.
Hvað annað gæti ég talið upp, jú heilsuleysi væri erfitt en það á við á öll aldurskeið.
Ég á mér þann draum að borin sé virðing fyrir ellinni, fyrir því sem hver og einn lagði af mörkum til þjóðfélagsins, fyrir lífsreynslunni, viskunni og kærleikanum sem býr í brjóstum eldra fólks.
RBen
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Vefurinn | Facebook