Fórnarlamb

Eitt kvöld fyrir mörgum árum, á hinni öldinni, sátum við hjónin saman í sófanum inni í stofu og eins og oft áður var það ég sem var í þörf fyrir að tala og hann hlustaði af athygli eins og alltaf. Ég var að tjá mig um eitthvað sem ég var mjög pirruð yfir, sem hafði gerst fyrr um daginn og mér fannst ég eiga verulega bágt og undirtónninn gaf til kynna að lífið væri mér óréttlátt. Þegar ég lauk máli mínu fór hann að hlæja og ég vissi um leið að einhverju skemmtilegu hafði verið hvíslað að honum. Eins og venjulega var ég að springa úr forvitni og bað hann að segja mér hvað var sagt sem vakti hjá honum hlátur.

Þá stóð hann upp og steig fram á gólfið, gekk hring eftir hring hálfboginn í baki og tuðaði: “Jejejejejejejejejeje jejejejejeje jejejejeje.” Síðan settist hann aftur og sagði við mig að vinur hans hefði lýst þessu þannig að ég væri eins og í stórri tunnu, gengi hring, eftir hring, eftir hring og mér finndist ég vera fórnarlamb lífsins. Ég var alveg steinhissa, hafði séð fórnarlambseinkenni hjá öðrum en hafði talið mig ALVEG stikkfría af þeim kvilla. Ég varð hljóð smástund en sá svo að kannski var sannleikskorn í þessari ábendingu.

 Ég fór því inn í herbergi til að hugleiða á þetta. Í hugleiðslunni var ég stödd í fjöru með svörtum fíngerðum sandi og þar var stór trétunna með tveimur gjörðum og ég var inni í tunnunni. Hún var svo stór að það var svigrúm til að ganga lítinn hring. Eftir smá stund fann ég að inni í þessari tunnu vildi ég ekki vera lengur. Ég fór eins djúpt inn á við og mér var unnt og kallaði fram viljakraftinn og þegar ég fann sannfæringuna lýsti ég því yfir í huganum af mikilli ákveðni að fórnarlamb ætlaði ég ekki lengur að vera. Þá opnaðust gjarðirnar og spýturnar féllu í sandinn í fallegan hring. Ég steig út úr hringnum og stóð í sandinum frjáls og fann mikla vellíðan.

 En eins og oft gerist og kannski alltaf fær maður próf í lífinu til að sýna staðfestu í því skrefi sem maður var að taka. Því var það einhverjum dögum seinna að ég fór að kvarta og kveina við minn mann yfir einhverju sem er núna löngu horfið úr minni mínu. En um leið birtist innra með mér mynd af tunnustöfunum í sandinum og höfðu þeir allir risið upp aftur og vantaði bara gjarðirnar til að loka tunnunni á ný. Ég snarþagnaði og þá féllu þeir niður í sandinn aftur. Eftir þetta tók ég mig á og aðeins einu sinni enn lyftust stafirnir til hálfs en það var nóg til að stöðva mig í það skiptið. Hins vegar skoðaði ég annað slagið í hugleiðslu stöðuna og sá hvernig sandurinn smátt og smátt lagðist yfir tunnustafina og að lokum hurfu þeir í sandinn.   

 RBen

      

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband