Enn á ný

Í morgun vakna ég með þungar hugsanir og langar alls ekki að takast á við hversdagleg verkefni sem bíða mín. Drattast samt fram úr til að borða morgunmat sem búið er að tilreiða fyrir mig og lýsi því yfir að mér þyki ekki gaman að lifa. Ég fæ glettið bros frá borðfélaga mínum en ég er alveg staðráðin í að halda í þessa vesöld og læt það ekki lyfta mér upp hið minnsta og segi með áherslu að lífið sé leiðinlegt. Hinu megin við borðið er djúpstæð ró og ég sé að hann ætlar ekki að vorkenna mér svo ég skríð inn rúm til velta mér upp úr eymd og sjálfsvorkunn. Ég finn að það er nautn að hugsa um hvað ég eigi virkilega bágt, lífið sé leiðinlegt og erfitt. Ég hef nú ekki um margt að kvarta svo ég fer hring eftir hring með sömu hugsanirnar.

Það skutlast inn í huga minn að ég sé að opna fyrir þunglyndið og yfirlýsing mín um að ég sé alveg laus við þunglyndið hafi lagt niður varnir mínar, leiðin að mér hafi orðið greið. Samt er ég ekki tilbúin að sleppa þessari fíkn strax en þá sé ég mynd af mér upp í miðri fjallshlíð. Fyrir neðan mig er snjóbrekka sem auðvelt er að renna sér eftir en neðst er hamrabrún sem ekki er gæfulegt að lenda fram af. En fyrir ofan mig er nokkuð brött fjallsbrekka með smágróðri og sólskini en það þarf að hafa fyrir því að klífa upp á við. Já þarna var ég stödd og hafði val. 

Ég fer á fætur og geng að glugganum og sé þá mann á hjóli með bakpoka og í stuttbuxum. Mér verður starsýnt á fallega brúna fæturna og ósjálfrátt brosi ég, finn að hjarta mitt opnast fyrir lífinu á ný, fyrir vorinu, sólinni, fyrir öllu sem er að vakna til lífsina og enginn vafi ég ætla upp brekkuna en ekki á rassinu niður.

 RBen

     

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband