3.5.2014 | 19:52
Að lifa með reisn
Fyrir um það bil ári síðan hitti ég nokkra vini á mínum aldri og talið barst að heilsunni sem er okkur öllum mikilvæg. Þá sagði einn úr hópnum að Alzheimer væri einn versti sjúkdómur sem hægt væri að fá því þá fengi fólk ekki að lifa með reisn.
Þessi setning lét mig ekki í friði og þegar heim var komið fór ég að velta því fyrir mér hvað það táknar?
Af hverju fannst þessum vini mínum fólk með Alzheimer ekki lifa lífinu af reisn? Var það af því bilunin á sér stað í höfðinu en ekki annars staðar í líkamanum? Var það af því að það er litið niður á þannig endalok? Eru þá þroskaheftir ekki að lifa með reisn?
Er meiri reisn fólgin í því að fást við krabbamein eða deyja snöggt vegna hjartaáfalls eða slysa?
Alzheimer sjúklingur missir smátt og smátt tökin á jarðnesku lífi en hann gerir sitt besta á meðan hann getur og þegar lífið hefur tekið af honum hugsanir og mál þá nær hann að lifa með því að vera og því fylgir friðsæld. Ekki hvarflaði að mér að síðasti líftími pabba og mömmu væri ekki með reisn en þau fengu bæði heilabilun á sitt hvorn mátann. Mamma mín varð til dæmis mýkri og kærleiksríkari en nokkru sinni fyrr síðustu árin sín með Alzheimer. Í raun reynir á aðstandendur að taka þessu af reisn, að sætta sig við að vitsmunaleg geta foreldranna er að hverfa.
Ég lít svo á að þeir sem gera sitt besta á hverri stundu lífs síns, ekki síst í erfiðleikum sama hverjir þeir eru, séu að lifa lífinu með reisn. Systir mín var með Downs Syndrom, hjartagalla og lungnasjúkdóm, hún lifði lífi sínu af miklu æðruleysi þrátt fyrir mikla fötlun og hún fékk virðingu samferðafólks síns. Mér var oft hugsað til hennar í mínum veikindum fyrir nokkrum árum og var hún mér sönn fyrirmynd.
Þá kemur upp spurningin hverjir lifa ekki með reisn? Mér dettur fyrst í hug þeir sem hafa enga stjórn á lífi sínu vegna fíknar svo sem eiturlyfjaneytendur og spilafíklar, hvers kyns glæpamenn, lygarar og samviskulausir svindlarar eru líka í þessum flokki. Já þetta er svo fjarri því að lifa með reisn að ekki þyrfti að nefna það.
En þegar ég lít til baka yfir líf mitt og ég spyr sjálfa mig hvort ég hafi alltaf lifað á besta veg þá er ekki hjá því komist að játa að þegar ég var sem þunglyndust og það var árum saman á fyrri hluta ævinnar, finnst mér ég ekki hafa lifað lífinu til fulls og ekki mikil reisn yfir mér. Ég veit að margir telja að þunglyndi sé eitthvað sem enginn geti gert við og það komi og fari eftir tilviljunum einum en svo er ekki í mínum huga.
RBen
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Vefurinn | Facebook