27.4.2014 | 20:21
Höllin
Kvöld eitt fyrir nokkrum árum var ég að draga niður rúllugardínu inni í svefnherbergi mínu og um leið fann ég fyrir þunglyndistilfinningu. Ég varð hissa og hugsaði hvað í ósköpunum væri hér á ferð og ég hló með sjálfri mér, vissi sem var að engin ástæða væri fyrir hendi í þetta skipti og um leið hvarf tilfinningin eins og dögg fyrir sólu. Þá gerði ég mér grein fyrir að þetta væri í fyrsta skipti á ævi minni sem ég nam þunglyndistilfinningu á sama andartaki og hún barst mér.
Er ég var að hugsa um þetta sá ég mynd innra með mér af höll. Í kringum höllina var hallarmúr og við hliðið stóðu varðmenn. Mér var alveg ljóst að það er ég sem er drottningin í þessari höll og einnig gerði ég mér grein fyrir að í lífi mínu í dag eru þeir stöðugt á verði við hliðið.
En í áratugi var ég ekki við stjórn í höllinni minni, ég vissi ekki einu sinni að ég væri drottningin í lífi mínu og ég hefði eitthvað um það að segja hvort ég léti þyrnigerðið kæfa höllina eða hvort ég tækist á við vandann.
Á þeim árum sváfu varðmennirnir við hliðið enda hafði drottningin ekki beðið þá um neitt og því gat þunglyndið komið og farið án þess að mér finndist ég hafa nokkuð um það að segja, frekar en hvernig veðrið yrði á morgun.
Þegar ég var um fertugt, nýkomin út úr erfiðu þunglyndi þar sem ég sá ekki til sólar í nokkra mánuði og hafði þar að auki ekki hlegið í nokkur ár, þá fann ég innra með mér sterka löngun um að verða aldrei aftur þunglynd. Ég þráði það svo heitt sem varð til þess að ég tók djúpa ákvörðun af allri minni einlægni, frá dýpstu rótum hjartans, af öllum þeim styrk og vilja sem í mér bjó og lýsti því yfir með sjálfri mér að ég skyldi aldrei, aldrei aftur verða þunglynd. Frá þeirri stundu skyldi ég leitast við að fara alltaf eftir því sem mér finndist djúpt innra með mér og setja mér að sjá eitthvað bjart framundan og skapa birtu í líf mitt.
Þá hófst baráttan við þyrnigerðið, hökkva það niður og hleypa ljósi inn í höllina. Meðvitað hvern dag þurfti ég að sjá fyrir mér hvernig ég gerði höllina fegurri alveg eftir mínu höfði.
En þunglyndið hélt áfram að banka upp á og reyna á staðfestu mína, gekk bara inn í höllina eins og það ætti heima þar og ég átti erfitt með að vísa því samstundis á braut. Rétt eins og þetta væri gamall elskhugi þá daðraði ég við þunglyndið, bauð því jafnvel upp á te og smákökur í hátíðarsalnum og fann að það var ákveðin fíkn og löngun til að vera með þessum elskhuga einu sinni enn, gleyma sér og tilverunni með honum. En mér tókst alltaf að ýta honum út úr höllinni áður en hann náði að opna ferðatösku sína og hengja upp fötin sín. Kannski stóð þetta yfir í 2-3 daga en ég vissi alltaf að ég myndi ekki hleypa þunglyndinu inn í líf mitt aftur og lærði fljótt að ég þyrfti að á endanum að segja hingað og ekki lengra.
Smátt og smátt tókst mér að breyta gömlu munstri og núna, 30 árum síðar, get ég loksins sagt að ég sé laus við þennan förunaut. Ég bý enn í höllinni, með varðmenn við hliðið, garðurinn orðinn gamalgróinn en velhirtur með blóma angan í lofti og fuglasöng í trjám.
RBen
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 21:50 | Facebook