24.4.2014 | 20:08
Hvar hef ég verið.
Oft hef ég valið að hugleiða og sleppa fréttum. Eitt sinn var ég spurð með hneykslun: Hvar hefur þú eiginlega verið? þegar mér varð það á að koma upp um fáfræði mína um fréttir dagsins í gær. Það var kveikjan að þessu ljóði:
Hvar hefur þú verið var ég spurð í dag
er ég vissi ekki nýjustu fréttir landsins.
Já hvar hef ég verið?
Ég ferðast í ljósinu hvert sem ég vil
strýk mannanna börnum um vanga
umvef jörðina heitri ást
sem ein af dætrum hennar.
Ég skoða blómin þó vetur sé
og baða mig í sólskini þó úti sé hríð.
Dáist að sköpun þessa heims
og undrast víðáttu, fjölbreytni og fegurðina.
Já ég hef ferðast öðrum heimi í.
Er nema von að þú spyrjir:
Hvar hefur þú verið?
Ég bara brosi blítt og segi ekki neitt
fæ svo að vita nýjasta nýtt.
En það halda mér engin bönd
og áður en langt um líður
er ég horfin á braut.
En þegar ég aftur lendi hér og
horfi í augu þín
og þú munt spyrja enn á ný
Hvar hefur þú verið?
Þá mun ég í einlægni
rétta þér hönd og segja:
Komdu með mér.
RBen
Meginflokkur: Lífstíll | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Vefurinn | Facebook