Færsluflokkur: Dægurmál
25.7.2014 | 22:05
Mitt framlag
Á yngri árum hafði ég væntingar um hvað lífið myndi gefa mér en þegar komið var fram yfir miðjan aldur snerist það yfir í hvað ég gæti gefið af mér og vilji hjá mér til að vera til gagns. Þá var ég búin að átta mig á að sælla er að gefa en þiggja. Ég hef verið að færast til allt lífið, oftast ómeðvitað og ég tek aðeins eftir þvi ef ég lít yfir farinn veg en stundum tek ég meðvitaða ákvörðun um að taka skref. Er ég hugsa tilbaka geri ég mér grein fyrir að áföllin og erfiðleikarnir þroskuðu mig mest en samt vildi ég helst vefja mína mína nánustu í bómull og svo ekkert komi fyrir þá.
Allt lífið er tækifæri til að þroskast um það sannfærðist ég þegar ég fylgdist mömmu minni á síðastu árum lífs hennar. Þrátt fyrir mikla skerðingu í heilastarfsemi þá varð hún mýkri og kærleiksríkari á þessum árum meira og meira eftir því sem á leið og ljómaði af friði. Mér finnst þetta svo heillandi og það gleður mig mjög að vita til þess að ég sé enn að læra og haldi því áfram allt til enda.
Á minni andlegu leið hef ég oft hugsað um hvernig ég gæti lagt mitt af mörkum til góðs hér á jörðu og árum saman fannst mér að það yrði að vera eitthvað sérstakt sem ég hefði ekki enn borið gæfu til að gera eða verða.
En eftir því sem árin hafa liðið í lífi mínu skil ég betur og betur að hvert og eitt okkar hefur áhrif á andrúmsloft jarðar með hugsunum sínum og hjartalagi. Það er framlag hvers og eins til tilveru okkar á jörðinni og þannig er einnig mitt hljóðláta framlag.
RBen
17.7.2014 | 17:50
Síðustu árin með pabba
Þegar ljóst var að pabbi væri kominn með heilabilun fann ég djúpt inni í mér sterka löngun til þess að leið pabba yrði sem mýkst og honum eins auðveld og mögulegt væri. Ég þráði að komið yrði fram við hann af virðingu.
Eftir að hann var kominn inn á Landakot varð ég vör við að aðstandendur fóru stundum heim með sinn ættingja og mér fannst eins og það yrði ég að gera fyrir pabba og það væri skylda mín en í raun langaði mig það ekki. Ég vildi frekar koma og slaka á með pabba þar sem hann var. En eftir að við hjónin fórum með pabba heim fyrstu jólin sem hann var inni og fundum hvað þetta var mikið basl og streð að koma honum upp og niður stigana og ekki síst hvað það óróaði pabba, gerði honum ekkert gott, þá hætti ég að hugsa í þá veru og losnaði við sektarkennd um að ég stæði mig ekki.
Eftir það hlustaði ég meira á tilfinningu mína um hvenær ég gæti verið til gleði fyrir pabba og pressaði mig ekki ef ég fann fyrir höfnun að fara. Því ef ég hvíldi mig einn daginn var ég öflugri næsta dag og tilbúin að gefa af mér. Því ákvað að gefa það sem ég gat af heilum hug og hjarta og hvíldi mig ef ég var ekki í formi.
Ég snéri oft dæminu við og hugsaði mér að ég væri sjúklingurinn og fann innra með mér að þá myndi ég ekki vilja undir neinum kringumstæðum vera heimsótt af skyldu, þvingun eða vorkunnsemi. Nei þvert á móti vildi ég færri heimsóknir og eingöngu af hjartahlýju og væntumþykju.
Oft sat ég hjá pabba án þess að tala mikið en hugsaði mér að ég umvefði hann kærleiksorku og var sannfærð um að það nærði hann á sama hátt og blóm skynja hlýjuna sem þau fá. Ég vildi að hann finndi að hann væri elskaður og ég sagði honum í hvert sinn sem ég kom að hann væri yndislegur pabbi.
Þegar pabbi var kominn á Hrafnistu átti hann enn erfiðara með að tjá sig þannig að ég skildi ekki allt sem hann sagði og þurfti ég að einbeita mér verulega til að heyra orð og orð en dugði þó ekki alltaf til. Augu hans ljómuðu alltaf þegar hann sá mig koma og hann var með sinn húmor, sá ýmislegt spaugilegt þarna á ganginum sem ég kom ekki auga á en ég hló bara af því að hann hló.
Það var alveg ljóst frá því að pabbi er lagður inn á Borgarspítalann 1998 að ég yrði sú sem styddi við pabba því systur mínar áttu heima annarsstaðar og mamma var ekki lengur fær um það. Mér var það bæði ljúft og skylt þó það væri stundum erfitt því ég vann fulla vinnu og leit líka til með mömmu, sem var þá líka komin með heilabilun þó á annan hátt væri.
En þegar ég hugsa tilbaka er ég afskaplega þakklát fyrir þennan tíma með pabba og vildi ekki hafa misst af þessari reynslu fyrir nokkurn mun. Einnig er ég stolt af sjálfri mér því að ég gerði þetta eins vel og mér var unnt. Aðalatriðið á þessari göngu var að mæta honum á þeim stað sem hann var staddur hverju sinni.
RBen
10.7.2014 | 22:30
Mín besta hugsun
Tengdadóttir mín benti mér á fyrir stuttu að hlusta á Abraham-Hicks á youtube. Miðillinn Ester Hicks miðlar Abraham og ég undrast færni hennar og ég heillast af svörum Abrahams við alls konar spurningum frá hinum þessum út í sal. Fræðslunni fylgir mikil kærleiksorka og mér líður oft eins og ég hafi verið í hugleiðslu eftir að hafa hlustað. En það er líka hægt að finna hugleiðslur frá Abraham og auðvelt að fylgja þeim eftir.
Stundum nær eitthvað óvænt að snerta mann djúpt, kannski ein setning sögð og hún gefur nýja sýn og þannig var það einn daginn þegar ég var að hlusta. Ég man ekki nákvæmlega orðin en það hljómaði einhvern veginn svona: Að hugsa það besta sem maður getur hverju sinni og tilfinningin vísar manni veginn. Ég ljómaði eins og sól í heiði og mér fannst ég skilja þetta alveg í botn og meiningin settist að í vitund minni.
Að sjálfsögðu fékk ég tækifæri næsta dag til að sannreyna hvort þetta virkaði. Það sóttu að mér áhyggjur og eins og lögmálið segir til um aðdráttaaflið þá dró ég að mér enn meiri áhyggjur, sem eru á sveimi í andrúmsloftinu, því af þeim er nóg í landinu okkar góða. Þessu fylgdi óþægileg tilfinning og ég fann að það var ekki á mínu valdi að leysa málið en ég var eins og ormur á öngli sem vildi losna en komst hvergi.
Þá skutlaðist inn í kollinn á mér að nú væri tækifæri til að hugsa það besta sem ég gæti í þessari stöðu. Ég reyndi að hugsa kærleiksríkt en fann að áhyggjurnar sóttu aftur að um leið og ég slakaði á þeirri hugsun, þær voru enn staðar, ég hafði ekki alveg sleppt af þeim hendinni. Eftir smá umhugsun ákvað ég að biðja fyrir viðkomandi og sá fyrir mér ljós Guðs umvefja þann sem ég var að hugsa um, og náði að hvíla í að allt yrði á besta veg samkvæmt Guðsvilja. Það dugði og ég varð friðsæl, leið vel á eftir og þær áhyggjur komu ekki aftur.
Eftir þetta hef ég fylgst betur með minni innri líðan, hef skoðað tilfinningar mínar með rannsóknareðli mínu og fundið skýrt að neikvæðar hugsanir, kalla fram leiðar tilfinningar og draga mig niður en kærleiksríkar hugsanir gefa góða tilfinningu og lyfta mér upp. Þetta er kannski öllum augljóst en samt er auðvelt að gleyma sér. Það þurfti ekki að vera nema örlítill pirringur eða neikvæð hugsun og ég fann að ég varð leið innra með mér og á sjálfri mér en ég valdi oftast að gefa því ekki mikið vægi og fór meðvitað að hugsa um það sem lyfti mér í anda.
Jafnvel á meðan ég skrifa þetta reynir hugur minn að segja mér að þetta sé ekki nógu gott sem ég skrifa og hver þekkir ekki neikvæðni hugans? Mitt svar að þessu sinni var að spyrja hjartað og það sagði að ég gerði mitt besta og þá leið mér vel. Ég þrái að ná tökum á þessu strax í gær eins og mín er von og vísa en er mannleg eins aðrir, þarf að halda vöku minni og grípa mig strax glóðvolga þegar ég gleymi mér en ég er lögð af stað og það er góð tilfinning!
RBen
26.6.2014 | 21:40
Að birta sitt ljós
Frá unglingsárum og nokkuð fram eftir aldri var ég þjökuð af feimni og átti erfitt með að segja mína skoðun og hélt jafnvel að ég hefði ekkert fram að færa sem skipti máli. Ég var langt frá því að birta sjálfa mig og hélt aftur af mér í tjáningu ef nokkrir voru saman komnir í hóp.
Eftir fertugt fór ég að hlusta meira á mína innri rödd, hvað mér finndist innst inni. og nokkrum árum síðar lagði ég meðvitað af stað inn á andlega leið sem hafði í för með sér að ég fór að vinna í sjálfri mér. Mörg skref hef ég síðan tekið í áttina að vera ég sjálf og mörg skref á ég eftir en ég er á leiðinni, er að smátt og smátt að styrkjast og þori betur að tjá mig. Mig langar að segja ykkur frá því sem hafði svo góð áhrif á mig og hjálpaði mér að vaxa í styrk.
Ég hafði verið hnuggin einn daginn og ákvað að hugleiða sem hjálpar mér alltaf þegar eitthvað amar að. Ég gekk eftir strönd í huganum og róaði mig með því að finna fyrir mjúkum sandinum í hverju spori. Svo settist ég niður með krosslagðar fætur og tengdi mig við Guð og nánast samstundis skynjaði ég kærleiksorkuna svo sterkt að ég klökknaði, hnipraði mig saman og hallaði mér að Guði. En þá heyrði ég: Vertu allt það ljós sem þú ert. Um leið skynjaði ég að ljós mitt stækkaði og var stærra en ég hafði áður sýnt.
Þessa setningu fæ ég oft í hugann og óðara rétti ég úr kútnum og sé þetta fyrir mér. Það er sannfæring mín að þetta hefur þau áhrif að ég birti betur allt það ljós sem ég er. Það væri mér sönn gleði ef einhver gæti nýtt sér þessa reynslu mína.
RBen
18.6.2014 | 22:18
Minning
Mamma mín bjó 3-4 ár ein eftir að pabbi var kominn inn á Hrafnistu með heilabilun. Sjálf var hún þá þegar orðin talsvert skert, sérstaklega varðandi skammtímaminnið og samtöl okkar því mikil endurtekning dag eftir dag.
Mér datt í hug að við gerðum eitthvað saman t.d. að fara á kaffihús til að hafa fjölbreyttara umræðuefni. En fljótlega varð mér ljóst að hún hafði engan áhuga á kökum og kaffihúsum og hafði kannski aldrei haft það. Þá stakk ég upp á að við færum út að borða af og til og prófuðum alltaf á nýjan stað svo við hefðum eitthvað skemmtilegt til að tala um næstu daga á eftir. Hún var alveg til í að fara út að borða því þar fannst henni hún vera að gera eitthvað fyrir mig og ekki kom til greina annað en að hún borgaði. Það gerðum við einu sinni í mánuði í lengri tíma þar til ég sá að hún hafði sáralitla lyst á matnum og þetta væri óþarfa fyrirhöfn því hún mundi ekkert daginn eftir og varð því ekki það umræðuefni sem ég lagði af stað með í upphafi.
Í síðasta skiptið sem við fórum saman var í tilefni afmælis mömmu og valdi ég Grillið á Hótel Sögu til að gera okkur verulegan dagamun. Þetta var á virkum degi og við nánast einar í salnum og þjónn stóð allan tímann nokkra metra frá okkur til að vera til taks við minnstu bendingu. Er ég skrifa þetta núna verð ég klökk yfir þessari minningu því það var svo ríkt í mömmu að gleðja mig og það var efst í hennar huga að mér þætti þetta gaman. Við drukkum sherry fyrir matinn og þó ég þyrfti að minna hana á í hvert sinn að súpa á drykknum þá var það í mínum huga til minningar um pabba sem keypti stundum sherry handa mömmu er þau fóru út. Hann smakkaði aldrei vín en hann vissi að henni þótti sherry gott á bragðið. Við fengum okkur líka dessert eftir matinn og hann var sá glæsilegasti sem ég man eftir að hafa fengið, með hárri sykurskreytingu. Þetta var dýrt kvöld sem mamma borgaði án þess að blikna og er nú yndisleg minning. Enn sé ég fyrir mér þegar þjónninn kom og klæddi mömmu í pelsinn eins og hún væri drottning sem hún auðvitað var þetta kvöld.
RBen
1.6.2014 | 16:28
Tenging mín við Guð
Það var svo margt sem breyttist hjá mér um fertugt og eitt af því sem ég upplifði, við sorg og erfiðleika á þeim tíma, var algjör vissa um Guðsvitundina. Ég fann svo sterkt að mér var hjálpað og ég væri aldrei ein í andlegum skilningi. Ekki eitt andartak hef ég efast um þann sannleik síðan þá og ég veit það í hjarta mínu, allri vitund minni og allri sálu minni að svo er.
Eitt sinn á þessum árum las ég að hver og einn gæti tengt sig persónulega við Guð en það yrði að vera sterk þrá, Guð yrði að vera viss um þú værir að meina það til að svara þér. Það þýddi ekki að rella eins krakki í dótabúð sem vildi fá þetta eða hitt, nei þú yrðir að þrá samband við Guð einlæglega af öllu hjarta.
Og ég lagði af stað, kallaði á Guð, grét af löngun og þrá, aftur og aftur, hugleiddi ég og bað. Ég hafði skilið það sem ég las þannig að Guð myndi svara mér og tók það svo bókstaflega að ég hélt að við mig yrði talað á íslensku og kannski yrði spjall okkar á milli.
Svona gekk það í nokkur ár en smátt og smátt skynjaði ég tenginguna orkulega, ég var umvafin slíkum kærleika sem ég get ekki lýst. Það tók tíma að ná þessu í hvert sinn sem ég settist í hugleiðslu en svo skildi ég að ef ég hugsaði um Guð innra með mér og allt um kring, talaði við Hann eins og Hann sæti alveg við hliðina á mér, héldi í hendina á mér en ekki eins og Hann væri langt í burtu þá náði ég tengingunni betur.
Í upphafi bjó ég mér til mynd af strönd, ég gekk hægt í sandinum, valdi mér svo stað til að sitja á og hugsaði mér um leið að Guð settist hjá mér. Á þessari strönd gekk mér svo vel að tengjast að enn í dag vel ég stundum að fara þangað þó ég geti nú orðið tengst Guði hvar sem er og þegar ég vil.
Þó skynjun mín á Guði sé orkuleg en ekki í formi kaffispjalls þá kemur fyrir að ein og ein setning komi til mín þegar það á við. Eitt sinn er ég sest í hugleiðslu og er svolitla stund að velja mér stað, máta mig í fjörunni, í brekku með blómum, við fallegt vatn og það kemur hik á mig. Þá segir Guð við mig mildilega: Segðu mér bara hvar þú vilt vera og ég fylgi þér. jafnframt kom það sterkt í vitund mína að Guð er með mér hvar sem ég er, yfirgefur mig aldrei, fylgist með mér og styður mig samkvæmt Guðs vilja þegar ég bið um það.
Svona var ég leidd áfram í leit minni að persónulegri tengingu við Guð og um leið get ég sagt að allar mannverur hér á jörðu hafa þann rétt en ég veit jafnframt að engir tveir fara sömu leið. Sjálf reyndi ég að finna mér stað í leið annarra en það var mér ekki ætlað og ég fann ekki frið fyrr en mér var það ljóst og lagði af stað mína leið. Hver og einn þarf að feta sinn eiginn veg eftir sínu innra eðli og hann einn veit það innra með sér hver sú leið er og verður leiddur áfram þegar hann leitar eftir því.
Hver einasta sál sem fæðist hér á jörðu hefur Guðsvitund innra með sér hvort sem hann fæðist hvítur, svartur, gulur eða rauður eða á hvað hann trúir eða trúir ekki. Það hefur ekkert með rúarbrögð að gera heldur er réttur hvers og eins að tengjast meðvitað Guðsvitund.
Tenging mín við Guð er mér mikilvægari en allt annað í lífinu, gefur mér ró og dýpri kærleika til alls sem er og fyrir það er ég eilíflega þakklát.
RBen.
26.5.2014 | 17:09
Gamalt munstur
Þegar mamma mín var að verða 80 ára gömul rann upp fyrir mér ljós að hún væri verulega farin að láta sig með minnið og í raun varð ég alveg steinhissa að ég skyldi ekki hafa áttað mig fyrr, því þá var komin umtalsverð skerðing.
Á þessu tímabili gerði ég mér grein fyrir að munstur mitt gagnvart mömmu var allt öðruvísi en gagnvart pabba og þannig hafði það verið frá því að ég var ung. Ég var sífellt að reyna að breyta mömmu og þá helst skoðunum hennar en ég var alltaf ljúf við pabba. Það var mér töluvert áfall að átta mig á þessu en í raun alveg nauðsynlegt fyrir mig að sjá það til þess að ég gæti lagt af stað með að breyta viðhorfum mínum og ekki seinna vænna því ég var staðráðin í að ná því áður en mamma færi yfir.
Ég skammaðist mín fyrir að hafa verið pirruð og önug við mömmu og setti mér í hvert sinn, þegar ég var að fara til hennar, að leggja mig fram um að vera þolinmóð og jákvæð. En hvað eftir annað brást mér bogalistin og ég varð ergileg, það lak úr mér orkan þegar ég varð neikvæð og ég kom stundum örþreytt heim. Svo fór ég biðja fyrir mér, bað Guð um hjálp til að vera í kærleika á þessum stundum og þá fór þetta að koma. Smátt og smátt fyrirgaf ég sjálfri mér og fór að sætta mig við mömmu mína eins og hún var hverju sinni og fór ég þá að sjá betur og betur eiginleika hennar og kosti. Þetta tók tíma en sem betur fer náði ég að sjá mömmu í réttu ljósi án gagnrýni og upplifði dásamlegar stundir með henni allt til enda.
Hún var velgefin, samviskusöm, hjálpfús og bar umhyggju fyrir þeim sem minna máttu sín, hörkudugleg, viljasterk, kjarkmikil, heiðarleg og trygg. Þrátt fyrir heilabilun og mikla skerðingu færðist mamma til á síðasta sprettinum, varð svo mild, blíð, friðsæl og kærleiksrík að unun var að.
RBen
22.5.2014 | 20:54
Að eldast
Ég las í morgun um könnun sem ég ákvað strax að taka þátt í og ein af fyrstu spurningunum hljóðar svo: Hvað er gott og hvað er slæmt við að eldast? Fyrsta hugsunin sem kom í hugann var að ef ég á annað borð vildi lifa væri gott að eldast.
Þegar ég var yngri hafði ég alls ekki alltaf lífslöngun, þjáðist af óöryggi, vanmetakennd, feimni og oft og tíðum af þunglyndi og lífsleiða. Mér fannst lífið byrja að lyftast eftir fertugt og hver áratugur eftir það verða betri og betri. Ég er enn sama sinnis nú næstum 72ja ára og gæti ekki hugsað mér að vera deginum yngri, ekki klukkustund yngri en ég er því það sem ég hef fengið með aldrinum er svo dýrmætt. Ég hef öðlast sjálfstraust, lífsreynslu, meiri skilning og samúð með öðrum, sé mig oftar með húmor og tek ekki lífið eins háalvarlega og áður. Ég er kærleiksríkari og þakklátari fyrir lífið, uppnumin yfir náttúrunni og fegurð sköpunarinnar og skynja sterkt kærleika Guðs umvefja mig og veit að Hann umvefur hvern og einn og allt sem er.
En ég eins og allir aðrir sveiflast, stundum með neikvæðan og ofvirkan huga, get orðið leið, pirruð, þung á brún, misupplögð og haft áhyggjur. Ég er svo sannarlega mannleg. Munurinn á mér núna og þegar ég var yngri er að nú get ég gert grín að því og veit að ekkert kemur til mín sem mér er ekki ætlað, ég er hér til að þroskast og það þarf stundum að strekkja á mér til að færa mig til.
Það sem gerir gæfumuninn er að nú á ég auðvelt með að fara inn á við í kyrrð og tengja mig við kærleika og ljós Guðs, þá færist ég til og sé lífið aftur í fegurra ljósi.
Á árunum 40-50 hefst dásamlegt tímabil í lífshlaupinu, tækifæri til aukins og dýpri þroska þar sem tengingin við sálina opnast og er oft kallað viskualdurinn og ég bæti því gjarnan við að lífið eftir fertugt séu demantsárin í lífinu og þar sem við eins og demantarnir höfum möguleika á að slípast og skína skært.
Mér hefur dottið það í hug að barnabörn sem koma oft inn í líf okkar á þessum aldri séu liður í að opna hjörtu okkar, gera okkur mjúk og blíð
En er eitthvað slæmt við að eldast? Ekki mikið, en ég get alveg játað það að ég legg mig fram um að leyna gráum hárum einfaldlega af því að mér finnst brúna hárið vera hluti af sjálfsmynd minni. Þá eru það hrukkurnar, ég fylgist grannt með þeim en með árunum hef ég fundið fyrir vaxandi ástúð gagnvart þeim og strýk mér hlýlega um vangann og segi gjarnan: Elskan.
Hvað annað gæti ég talið upp, jú heilsuleysi væri erfitt en það á við á öll aldurskeið.
Ég á mér þann draum að borin sé virðing fyrir ellinni, fyrir því sem hver og einn lagði af mörkum til þjóðfélagsins, fyrir lífsreynslunni, viskunni og kærleikanum sem býr í brjóstum eldra fólks.
RBen
16.5.2014 | 20:42
Örgjörvinn
Í einu kvöldspjalli okkar hjóna um þunglyndi miðlaði hann þessu til mín.
Er hægt að finna innra með hverjum og einum lítinn örgjörva, sem sendir frá sér gleði og ljós, er alltaf til staðar og aldrei þarf að skipta um batterí?
Örgjörvinn er guðskrafturinn. Því guðskrafturinn er gleði, ljós og kærleikur. Þegar einhver, sem hefur verið þjáður af þunglyndi, nær sambandi við trúna á Guð og finnur guðskraftinn þá getur hann ekki lengur verið þunglyndur. Það er ekki hægt að vera bæði þunglyndur og finna fyrir gleði, ljósi og kærleika Guðs. Það rúmast ekki saman.
RBen
12.5.2014 | 18:26
Fórnarlamb
Eitt kvöld fyrir mörgum árum, á hinni öldinni, sátum við hjónin saman í sófanum inni í stofu og eins og oft áður var það ég sem var í þörf fyrir að tala og hann hlustaði af athygli eins og alltaf. Ég var að tjá mig um eitthvað sem ég var mjög pirruð yfir, sem hafði gerst fyrr um daginn og mér fannst ég eiga verulega bágt og undirtónninn gaf til kynna að lífið væri mér óréttlátt. Þegar ég lauk máli mínu fór hann að hlæja og ég vissi um leið að einhverju skemmtilegu hafði verið hvíslað að honum. Eins og venjulega var ég að springa úr forvitni og bað hann að segja mér hvað var sagt sem vakti hjá honum hlátur.
Þá stóð hann upp og steig fram á gólfið, gekk hring eftir hring hálfboginn í baki og tuðaði: Jejejejejejejejejeje jejejejejeje jejejejeje. Síðan settist hann aftur og sagði við mig að vinur hans hefði lýst þessu þannig að ég væri eins og í stórri tunnu, gengi hring, eftir hring, eftir hring og mér finndist ég vera fórnarlamb lífsins. Ég var alveg steinhissa, hafði séð fórnarlambseinkenni hjá öðrum en hafði talið mig ALVEG stikkfría af þeim kvilla. Ég varð hljóð smástund en sá svo að kannski var sannleikskorn í þessari ábendingu.
Ég fór því inn í herbergi til að hugleiða á þetta. Í hugleiðslunni var ég stödd í fjöru með svörtum fíngerðum sandi og þar var stór trétunna með tveimur gjörðum og ég var inni í tunnunni. Hún var svo stór að það var svigrúm til að ganga lítinn hring. Eftir smá stund fann ég að inni í þessari tunnu vildi ég ekki vera lengur. Ég fór eins djúpt inn á við og mér var unnt og kallaði fram viljakraftinn og þegar ég fann sannfæringuna lýsti ég því yfir í huganum af mikilli ákveðni að fórnarlamb ætlaði ég ekki lengur að vera. Þá opnaðust gjarðirnar og spýturnar féllu í sandinn í fallegan hring. Ég steig út úr hringnum og stóð í sandinum frjáls og fann mikla vellíðan.
En eins og oft gerist og kannski alltaf fær maður próf í lífinu til að sýna staðfestu í því skrefi sem maður var að taka. Því var það einhverjum dögum seinna að ég fór að kvarta og kveina við minn mann yfir einhverju sem er núna löngu horfið úr minni mínu. En um leið birtist innra með mér mynd af tunnustöfunum í sandinum og höfðu þeir allir risið upp aftur og vantaði bara gjarðirnar til að loka tunnunni á ný. Ég snarþagnaði og þá féllu þeir niður í sandinn aftur. Eftir þetta tók ég mig á og aðeins einu sinni enn lyftust stafirnir til hálfs en það var nóg til að stöðva mig í það skiptið. Hins vegar skoðaði ég annað slagið í hugleiðslu stöðuna og sá hvernig sandurinn smátt og smátt lagðist yfir tunnustafina og að lokum hurfu þeir í sandinn.
RBen