Færsluflokkur: Vefurinn

Blómið

Ég er sem lítið viðkvæmt blóm

og legg mig alla fram

að sýna fegurð mín

sem Guð gaf mér.

 

Ég vex í þeim jarðvegi

sem hentar mér best

og einmitt svona

á ég að vera.

 

Ég veit að ég dreg að mér

allt sem ég þarf

og allt mun mér veitast

ef ég aðeins man

hver ég er

hvaðan ég kom

og hvert er förinni heitið.

 

RBen

  

Enn á ný

Í morgun vakna ég með þungar hugsanir og langar alls ekki að takast á við hversdagleg verkefni sem bíða mín. Drattast samt fram úr til að borða morgunmat sem búið er að tilreiða fyrir mig og lýsi því yfir að mér þyki ekki gaman að lifa. Ég fæ glettið bros frá borðfélaga mínum en ég er alveg staðráðin í að halda í þessa vesöld og læt það ekki lyfta mér upp hið minnsta og segi með áherslu að lífið sé leiðinlegt. Hinu megin við borðið er djúpstæð ró og ég sé að hann ætlar ekki að vorkenna mér svo ég skríð inn rúm til velta mér upp úr eymd og sjálfsvorkunn. Ég finn að það er nautn að hugsa um hvað ég eigi virkilega bágt, lífið sé leiðinlegt og erfitt. Ég hef nú ekki um margt að kvarta svo ég fer hring eftir hring með sömu hugsanirnar.

Það skutlast inn í huga minn að ég sé að opna fyrir þunglyndið og yfirlýsing mín um að ég sé alveg laus við þunglyndið hafi lagt niður varnir mínar, leiðin að mér hafi orðið greið. Samt er ég ekki tilbúin að sleppa þessari fíkn strax en þá sé ég mynd af mér upp í miðri fjallshlíð. Fyrir neðan mig er snjóbrekka sem auðvelt er að renna sér eftir en neðst er hamrabrún sem ekki er gæfulegt að lenda fram af. En fyrir ofan mig er nokkuð brött fjallsbrekka með smágróðri og sólskini en það þarf að hafa fyrir því að klífa upp á við. Já þarna var ég stödd og hafði val. 

Ég fer á fætur og geng að glugganum og sé þá mann á hjóli með bakpoka og í stuttbuxum. Mér verður starsýnt á fallega brúna fæturna og ósjálfrátt brosi ég, finn að hjarta mitt opnast fyrir lífinu á ný, fyrir vorinu, sólinni, fyrir öllu sem er að vakna til lífsina og enginn vafi ég ætla upp brekkuna en ekki á rassinu niður.

 RBen

     

Að lifa með reisn

Fyrir um það bil ári síðan hitti ég nokkra vini á mínum aldri og talið barst að heilsunni sem er okkur öllum mikilvæg. Þá sagði einn úr hópnum að Alzheimer væri einn versti sjúkdómur sem hægt væri að fá því þá fengi fólk ekki að lifa með reisn.

Þessi setning lét mig ekki í friði og þegar heim var komið fór ég að velta því fyrir mér hvað það táknar?    

Af hverju fannst þessum vini mínum fólk með Alzheimer ekki lifa lífinu af reisn? Var það af því bilunin á sér stað í höfðinu en ekki annars staðar í líkamanum? Var það af því að það er litið niður á þannig endalok? Eru þá þroskaheftir ekki að lifa með reisn?

Er meiri reisn fólgin í því að fást við krabbamein eða deyja snöggt vegna hjartaáfalls eða slysa?  

 Alzheimer sjúklingur missir smátt og smátt tökin á jarðnesku lífi en hann gerir sitt besta á meðan hann getur og þegar lífið hefur tekið af honum hugsanir og mál þá nær hann að lifa með því að vera og því fylgir friðsæld. Ekki hvarflaði að mér að síðasti líftími pabba og mömmu væri ekki með reisn en þau fengu bæði heilabilun á sitt hvorn mátann. Mamma mín varð til dæmis mýkri og kærleiksríkari en nokkru sinni fyrr síðustu árin sín með Alzheimer. Í raun reynir á aðstandendur að taka þessu af reisn, að sætta sig við að vitsmunaleg geta foreldranna er að hverfa.

Ég lít svo á að þeir sem gera sitt besta á hverri stundu lífs síns, ekki síst í erfiðleikum sama hverjir þeir eru, séu að lifa lífinu með reisn. Systir mín var með Downs Syndrom, hjartagalla og lungnasjúkdóm, hún lifði lífi sínu af miklu æðruleysi þrátt fyrir mikla fötlun og hún fékk virðingu samferðafólks síns. Mér var oft hugsað til hennar í mínum veikindum fyrir nokkrum árum og var hún mér sönn fyrirmynd.  

Þá kemur upp spurningin hverjir lifa ekki með reisn? Mér dettur fyrst í hug þeir sem hafa enga stjórn á lífi sínu vegna fíknar svo sem eiturlyfjaneytendur og spilafíklar, hvers kyns glæpamenn, lygarar og samviskulausir svindlarar eru líka í þessum flokki. Já þetta er svo fjarri því að lifa með reisn að ekki þyrfti að nefna það.

En þegar ég lít til baka yfir líf mitt og ég spyr sjálfa mig hvort ég hafi alltaf lifað á besta veg þá er ekki hjá því komist að játa að þegar ég var sem þunglyndust og það var árum saman á fyrri hluta ævinnar, finnst mér ég ekki hafa lifað lífinu til fulls og ekki mikil reisn yfir mér. Ég veit að margir telja að þunglyndi sé eitthvað sem enginn geti gert við og það komi og fari eftir tilviljunum einum en svo er ekki í mínum huga.

RBen

        

Vorið

Vorið er komið

milt og fallegt

logn á tjörninni

brum á trjánum

kríur á flugi

fuglasöngur.

Ég ætla að njóta

hverrar mínútu

á þessu vori.

Skynja fegurð jarðar

fegurð sköpunar Guðs

sjá allt vakna til lífsins.

Megi mannkynið vakna

á sama hátt og blómstra

horfa upp til Guðs

með auðmýkt

kærleika og þakklæti

því hans er mátturinn

og dýrðin.

 RBen        


Höllin

Kvöld eitt fyrir nokkrum árum var ég að draga niður rúllugardínu inni í svefnherbergi mínu og um leið fann ég fyrir þunglyndistilfinningu. Ég varð hissa og hugsaði hvað í ósköpunum væri hér á ferð og ég hló með sjálfri mér, vissi sem var að engin ástæða væri fyrir hendi í þetta skipti og um leið hvarf tilfinningin eins og dögg fyrir sólu. Þá gerði ég mér grein fyrir að þetta væri í fyrsta skipti á ævi minni sem ég nam þunglyndistilfinningu á sama andartaki og hún barst mér.

Er ég var að hugsa um þetta sá ég mynd innra með mér af höll. Í kringum höllina var hallarmúr og við hliðið stóðu varðmenn. Mér var alveg ljóst að það er ég sem er drottningin í þessari höll og einnig gerði ég mér grein fyrir að í lífi mínu í dag eru þeir stöðugt á verði við hliðið.

 En í áratugi var ég ekki við stjórn í höllinni minni, ég vissi ekki einu sinni að ég væri drottningin í lífi mínu og ég hefði eitthvað um það að segja hvort ég léti þyrnigerðið kæfa höllina eða hvort ég tækist á við vandann.

Á þeim árum sváfu varðmennirnir við hliðið enda hafði drottningin ekki beðið þá um neitt og því gat þunglyndið komið og farið án þess að mér finndist ég hafa nokkuð um það að segja, frekar en hvernig veðrið yrði á morgun.

Þegar ég var um fertugt, nýkomin út úr erfiðu þunglyndi þar sem ég sá ekki til sólar í nokkra mánuði og hafði þar að auki ekki hlegið í nokkur ár, þá fann ég innra með mér sterka löngun um að verða aldrei aftur þunglynd. Ég þráði það svo heitt sem varð til þess að ég tók djúpa ákvörðun af allri minni einlægni, frá dýpstu rótum hjartans, af öllum þeim styrk og vilja sem í mér bjó og lýsti því yfir með sjálfri mér að ég skyldi aldrei, aldrei aftur verða þunglynd. Frá þeirri stundu skyldi ég leitast við að fara alltaf eftir því sem mér finndist djúpt innra með mér og setja mér að sjá eitthvað bjart framundan og skapa birtu í líf mitt.

Þá hófst baráttan við þyrnigerðið, hökkva það niður og hleypa ljósi inn í höllina. Meðvitað hvern dag þurfti ég að sjá fyrir mér hvernig ég gerði höllina fegurri alveg eftir mínu höfði.

En þunglyndið hélt áfram að banka upp á og reyna á staðfestu mína, gekk bara inn í höllina eins og það ætti heima þar og ég átti erfitt með að vísa því samstundis á braut. Rétt eins og þetta væri gamall elskhugi þá daðraði ég við þunglyndið, bauð því jafnvel upp á te og smákökur í hátíðarsalnum og fann að það var ákveðin fíkn og löngun til að vera með þessum elskhuga einu sinni enn, gleyma sér og tilverunni með honum. En mér tókst alltaf að ýta honum út úr höllinni áður en hann náði að opna ferðatösku sína og hengja upp fötin sín. Kannski stóð þetta yfir í 2-3 daga en ég vissi alltaf að ég myndi ekki hleypa þunglyndinu inn í líf mitt aftur og lærði fljótt að ég þyrfti að á endanum að segja hingað og ekki lengra.

Smátt og smátt tókst mér að breyta gömlu munstri og núna, 30 árum síðar, get ég loksins sagt að ég sé laus við þennan förunaut. Ég bý enn í höllinni, með varðmenn við hliðið, garðurinn orðinn gamalgróinn en velhirtur með blóma angan í lofti og fuglasöng í trjám.

RBen


Hvar hef ég verið.

Oft hef ég valið að hugleiða og sleppa fréttum. Eitt sinn var ég spurð með hneykslun: ”Hvar hefur þú eiginlega verið?” þegar mér varð það á að koma upp um fáfræði mína um fréttir dagsins í gær. Það var kveikjan að þessu ljóði:

 Hvar hefur þú verið var ég spurð í dag

er ég vissi ekki nýjustu fréttir landsins.

Já hvar hef ég verið?

Ég ferðast í ljósinu hvert sem ég vil

strýk mannanna börnum um vanga

umvef jörðina heitri ást

sem ein af dætrum hennar.

Ég skoða blómin þó vetur sé

og baða mig í sólskini þó úti sé hríð.

Dáist að sköpun þessa heims

og undrast víðáttu, fjölbreytni og fegurðina.

Já ég hef ferðast öðrum heimi í.

Er nema von að þú spyrjir:

Hvar hefur þú verið?

Ég bara brosi blítt og segi ekki neitt

fæ svo að vita nýjasta nýtt.

En það halda mér engin bönd

og áður en langt um líður

er ég horfin á braut.

En þegar ég aftur lendi hér og

horfi í augu þín

og þú munt spyrja enn á ný

Hvar hefur þú verið?

Þá mun ég í einlægni

rétta þér hönd og segja:

Komdu með mér.

 RBen

 


Dalurinn

Þar sem ég er dæmigerð vog þá hefur mér oft þótt erfitt að taka ákvörðun, sveiflast fram og til baka þó ég fari ekki lengur í eins djúpar dýfur og þegar þetta er skrifað fyrir 20 árum.  Það dillar í mér að skynja óþolinmæðina í þessum skrifum:

 

Enn og aftur tek ég dýfu niður í dalinn.

Sé þetta leiðin fyrir mig til að skilja og skynja

þá tek ég því, jafnvel með þökkum.

En hvað ég þrái að skilningurinn komi samt fljótt.

Verð að játa að ég botna ekki neitt í því

hvaða skref ég á að taka næst.

Hvað myndi sál mín gera ef hún réði ferðinni?

Ég heyri ekki hvað hún segir

skynja ekki leiðbeiningu tilfinninga.

Hugur minn er ekki rór.

Persóna mín vill öskra

þetta er óttalegt streð.

Mig dreymir ruglaða drauma.

Sé ekki til lands í þessum öldudal

Ég bið um hjálp að augu mín opnist

og sjái þá leið sem verður mér

helst að andlegum þroska.

Megi ég ná að lifa í flæðinu,

fylgja lögmáli lífsins

ná innri gleði

innri ró

sem fyrst!!

RBen


Lífið hlær

Ég hlæ inni í mér

veit samt ekki af hverju.

Kannski skynjaði ég

hlátur alheimsins

gleði englanna

bros himinsins.

Ég held mér í tilfinningunni

neita huganum að rökræða.

Lít út um gluggann

og sé lífið með

augum hlátursins

þetta augnablik.

 RBen                                                                                                         



Skref í þroska

Á lífsleiðinni hefur mér orðið á að særa aðra, ekki af ásetningi, frekar í fljótfærni, reiði, hugsunarleysi eða vanmætti. Það hefur ávallt gert mig leiða og því fyrr sem ég gat bætt fyrir það, leiðrétt orð mín eða beðist afsökunar, var til hins betra. Oft brást ég snöggt við þegar mér fannst að mér vegið í orði og þess vegna svaraði ég alls ekki alltaf af yfirvegun. Með árunum kom sífellt sterkari löngun til að ná þeim þroska að geta tekið því með jafnaðargeði, íhugað það sem sagt var og svara rólega en gamalt munstur er oft þrautseigt. 

Fyrir um það bil 12 árum síðan urðu smá kaflaskil í ósjálfráðum viðbrögðum mínum sem ég ætla að deila með ykkur.

Það kom til mín kona sem sagði eitthvað við mig sem mér fannst óþægilegt og af venju svaraði ég snöggt, var neikvæð en fann um leið að ég var óánægð með að hafa brugðist þannig við. Svo ég bað konuna að endurtaka allt aftur það sem hún hafði sagt því mig langaði til að svara henni öðruvísi. Hún tók vel í það, byrjaði alveg upp á nýtt og þá tókst mér að setja fram mína skoðun rólega, yfirvegað og með jákvæðri orku. Ég varð svo glöð, faðmaði konuna og ég fann umleið fyrir miklum fögnuði eins og ég hefði unnið stóran sigur. Án þess að vita það setti þessi kona mig í próf og ég stóðst prófið í annarri tilraun.

Síðan hefur alheimurinn gefið mér mörg tækifæri til að þjálfa viðbrögð mín.  Þroski á þessu sviði er langhlaup og gerist ekki á skömmum tíma.  Ég er langt frá því að vera búin að ná tökum á þessu en ég finn í hvert skipti sem á þetta reynir þá þokast ég nær markmiðinu og ég gleðst yfir hverju skrefi.

 RBen

 

 


Finnum við fyrir kærleikanum?

Ég settist niður til að hugleiða hvað ég ætti að skrifa um í þessum fyrsta pistli á nýrri bloggsíðu þar sem ætlunin er að kafa svolítið undir yfirborð hins daglega lífs okkar. Flest erum við að flýta okkur svo mikið að við gefum okkur ekki tíma til að íhuga helstu viðburði hversdagsins eða hvort við erum að tapa af einhverju með hraðanum. Verðum við kannski af margri dýrmætri upplifun og reynslu,  sem gæti auðgað líf okkar verulega?

Ég leitað ekkert langt eftir viðfangi heldur leiddi hugann að því  hvað ég hefði gert undanfarna daga og skoðaði hvaða ánægja mér hefði hlotnast af því sem ég gerði og hvort það hefði fært mér aukna orku.

Ég komst að því að þó mér finndist afskaplega mikið að gera, þá var úthald mitt betra en verið hefur um langt skeið. Ég var líka glaðari þó ýmsir þættir gengju dálítið gegn óskum mínum um framgang.  En það sem vakti mér mesta undrun, var að verkefnin sem ég hafði verið búinn að gefa upp á bátinn, ætlaði að hætta að hugsa um, höfðu hvað eftir annað verið að lauma sér eiginlega bakdyra megin inn í dagskrána hjá mér, án þess að ég tæki beinlínis eftir því.

Þegar ég áttaði mig á þessu hugsaði ég afskaplega hlýlega til andlegra leiðbeinenda minna og fann að þeir voru að láta mig vita að nú væri rétti tíminn til að klára það sem ég hafði sett til hliðar. Ég fór að ábendingu þeirra og settist yfir verkefnin.  Krafturinn sem fylgdi þessu var alveg einstakur og þau atriði sem ég þurfti að fá utan frá komu upp í hendur mínar án þess að ég leitaði eftir þeim.

Þar sem ég sit núna og set þetta á blað, geri ég mér grein fyrir því að hefði ég verið spenntur, upplifað mig vera að kaffærast í verkefnum eða verið í pirringi vegna þess að ekki gekk allt eins og ég hafði vænst, þá hefði ég líklega ekki orðið var við og meðtekið þessi hárfínu skilaboð sem bentu mér á að það væri verið að ýta inn í dagskrá mína verkefnum sem ég hafði verið búinn að setja í geymslu.

Ég vil gefa ykkur sem lesið þetta, þessa hugleiðingu í páskagjöf og sem upphafsgjöf á þessu nýja bloggi, með von um fleiri góðar hugleiðingar. Hve oft töpum við af kærleiksríkum og orkugefandi upplifunum vegna þess að við gefum okkur ekki tíma til að hlusta á þögnina og okkar innri vitund? Það tekur tíma að læra að slaka á og hlusta á hin orðlausu skilaboð, en sú friðsæla vitund sem fæst í sigurlaun er svo mikils virði að um meira verður vart beðið.     

  Með kveðju #GJ

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband